Samkvæmt spá bandarískra yfirvalda um kórónuveirufaraldurinn er talið líklegt að á bilinu 100-240 þúsund manns láti lífið vegna COVID-19 sýkingar þar í landi. Staðfest smit eru hvergi fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hafa tæplega 300 þúsund smit þegar verið staðfest og hartnær 8 þúsund manns eru látin.
Langverst er staðan orðin í New York-ríki. Þar létust 630 síðasta sólarhring, samkvæmt tilkynningu sem ríkisstjórinn Andrew Cuomo sendi frá sér fyrr í dag.
Sérfræðingarnir sem standa í stafni fyrir bandarísk heilbrigðisyfirvöld í þessari baráttu telja að það gæti farið enn verr, ef Bandaríkjamenn virða ekki þau tilmæli sem gefin hafa verið út í því skyni að hefta útbreiðsluna.
Það nýjasta í þeim efnum er að mælst er til þess að allir Bandaríkjamenn gangi um með grímur eða aðrar hlífar fyrir vitunum ef þeir eru úti á almannafæri. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þó gefið það út, eiginlega þvert á tilmæli heilbrigðisyfirvalda, að hann ætli sér ekki að ganga með grímu.
Anthony Fauci, yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, hefur hvatt öll ríki landsins til þess að fyrirskipa íbúum að halda sig heima, en ríkjunum hefur verið í sjálfsvald sett hvort þau beina ströngum tilmælum til fólks um að halda sig heima eða ekki. Langflest, eða yfir fjörutíu ríki, hafa sagt fólki að vera heima nema brýna nauðsyn beri til.
Breyttur tónn forsetans
Donald Trump varaði við því á þriðjudag að framundan væru „erfiðir dagar“ og næstu tvær vikur yrðu þungar. Í fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn fór að geisa virtist forsetinn átta sig að fullu á alvarleika málsins og tala opinberlega í samræmi við það, en fjölmargar yfirlýsingar hans um faraldurinn til þessa hafa ekki staðist nokkra skoðun.
Ekki er nema rúm vika síðan forsetinn sagðist helst vilja aflétta öllum tilmælum til fólks um samskiptafjarlægð strax um páskana vegna þeirra geigvænlegu áhrifa sem aðgerðirnar eru að hafa á efnahagslífið í Bandaríkjunum.
„Lækningin má ekki verða verri en sjúkdómurinn,“ varð hálfgerð mantra forsetans á tímabili, á milli þess sem hann lét fjölmiðlafólk heyra það fyrir „ósanngjarnar spurningar“ og það sem að hans mati voru tilraunir til þess að hræða almenning að óþörfu.
Anthony Fauci, sem hefur gjarnan birst við hlið Trump á blaðamannafundum þar sem farið er yfir útbreiðslu veirunnar og aðgerðir stjórnvalda, sagði í viðtali í hlaðvarpsþættinum Daily frá New York Times í vikunni að þó væri það svo að forsetinn hefði alla tíð, frá því að hann og aðrir sérfræðingar byrjuðu að miðla upplýsingum, tekið ógninni af veirunni alvarlega. Þrátt fyrir allt sem hann hefur sagt.
Trump hefur bara „ákveðinn stíl“, sem erfitt er fyrir embættismann að ætla sér reyna að hemja, sagði Fauci, sem persónulega hefur í nokkrum tilfellum þurft að leiðrétta eða draga úr yfirlýsingum forsetans um faraldurinn. Í kjölfarið hefur hann svo þurft að fá aukna öryggisgæslu vegna hótana sem honum hafa borist fyrir að vara við hættunni sem stafar af faraldrinum og hvetja til harðra aðgerða. Samsæriskenningasmiðir telja vísindamanninn vera að reyna að grafa undan Trump á kosningaári.
Faraldurinn er enn í hröðum vexti í Bandaríkjunum og ekki er útséð með hvernig hann mun fara með þjóðina, en bæði staðan og horfurnar eru slæmar, sérstaklega í New York og fleiri stórborgum þar sem mannmergðin er mikil og smitleiðir hafa verið greiðar.
Þungt högg fyrir neysludrifinn efnahag
Ljóst er að efnahagshöggið í Bandaríkjunum verður gríðarlegt, þrátt fyrir þann tveggja billjarða dala björgunarpakka sem samþykktur hefur verið til þess að reyna að halda stærsta efnahagskerfi heims á floti.
Um tíu milljónir manna hafa sótt um atvinnuleysisbætur undanfarnar tvær vikur og sérfræðingar telja margir að það sé bara byrjunin, milljónir eigi enn eftir að bætast við. Áður höfðu mest innan við sjöhundruð þúsund manns sótt um atvinnuleysisbætur á einni viku í Bandaríkjunum.
Efnahagsáfallið sem fylgir veirunni á án efa eftir að hafa mikil áhrif á líf og heilsu fjölda Bandaríkjamanna, enda þýðir atvinnuleysi þar í landi í mörgum tilfellum að fátækt fólk missir sjúkratryggingar sínar og það öryggi sem þær veita. Það veit ekki á gott þegar heilsuvá steðjar að, en þó hafa bandarísk yfirvöld gefið út að allir geti fengi meðferð vegna kórónuveirusmits sér að kostnaðarlausu.