Peningaprentun án innistæðu hentar smærri myntsvæðum illa sem leið seðlabanka til að örva hagkerfi í kreppum. Magnbundin íhlutun geti hins vegar nýst íslenskum stjórnvöldum, heimilum og fyrirtækjum vel með lægri langtímavöxtum.
Þetta kemur fram í grein Þórunnar Helgadóttur, hagfræðings hjá Compass Lexecon í Madríd, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út síðasta föstudag.
Í greininni fjallar Þórunn um tvær aðgerðir sem heyra til óhefðbundinnar peningastefnu á krísutímum, magnbundna íhlutun (Quantitative easing) og þyrlukast (Helicopter drop).
Báðar aðgerðirnar hafa verið nefndar sem hugsanleg úrræði til þess að koma í veg fyrir enn frekari samdrátt vegna veirufaraldursins með því að auka peningamagn í umferð.
Magnbundin íhlutun
Magnbundin íhlutun, sem felur í sér kaup á ríkisskuldabréfum, er ætlað að örva fjármálamarkaði og hafa þannig áhrif á langtímavexti. Seðlabanki Japans var fyrstur til að grípa til slíkra úrræða á árunum 2001-2006, en seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands og Evrópusambandsins gerðu slíkt hið sama í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 og efnahagsþrenginganna sem henni fylgdi.Í grein sinni víkur Þórunn sérstaklega að viðbrögðum Mario Draghi, bankastjóra evrópska seðlabankans, sem sagðist munu standa vörð um evruna „hvað sem það kostar“ í frægri ræðu sinni í miðju kreppunnar á Evrusvæðinu.
Þyrlukast
Samkvæmt Þórunni er þyrlukast, sem felur í sér innistæðulausa peningaprentun þar sem hinir nýprentuðu seðlar verða eftir í hagkerfinu, umdeildari aðgerð. Hún bendir þó á að Jordi Galí, einn virtasti þjóðhagfræðingur heims, segi að efnahagsaðstæður nú, ef einhvern tímann kalli á þyrlukast á Evrusvæðinu. „Hins vegar leggur Galí áherslu á að slíkar aðgerðir séu neyðarúrræði sem aðeins ætti að beita ef ljóst er að aðrar aðferðir verði árangurslausar eða hafi óæskilegar afleiðingar,“ skrifar hún.Einnig bætir Þórunn við að peningaprentun á stóru myntsvæði líkt og Evrusvæðinu sé ólíkleg til að þynna út gjaldmiðilinn þar sem evrur hafa alþjóðlegt verðmæti, en að smærri myntsvæði gætu lent í greiðslujöfnunarvanda ef slíkum úrræðum er beitt þar.
Fjallað er ítarlegar um málið í síðustu Vísbendingu, sem hægt er að gerast áskrifandi að hér.