Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hvetur alla banka til að halda að sér höndum varðandi arðgreiðslur og kaup á eigin hlutabréfum ef slíkar ráðstafanir gætu leitt til dreifingar fjármagns út fyrir bankakerfið. Sú hvatning er send út til að standa vörð um fjárhagsstyrk bankakerfisins.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu EBA um arðgreiðslur, kaup á eigin hlutabréfum og breytilegar þóknanir sem birt var á íslensku á vef Seðlabanka Íslands í dag.
Þar er ítrekað það sem sagt var í fyrri yfirlýsingu EBA frá 12. mars síðastliðnum, þar sem bankar voru eindregið hvattir til að „fylgja varfærnislegri stefnu um arðgreiðslur og aðrar greiðslur, þ.m.t. breytilegar þóknanir og nota fjármagn fremur til að tryggja samfellt fjármagnsflæði til hagkerfisins“ á meðan að COVID-19 faraldurinn stendur yfir.
EBA hefur einnig lagt áherslu á að eiginfjárstuðningur sem stafar af aðgerðum yfirvalda vegna faraldursins í hverjum landi fyrir sig sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem stofnun setur reglur fyrir, skuli nýttur til að „fjármagna fyrirtæki og heimili en ekki til að hækka arðgreiðslur eða kaupa eigin hlutabréf í þágu hluthafa“.
Markmiðið með því að úthluta fjármagni innan bankasamstæðu eigi að vera að „styðja við svæðisbundin hagkerfi sem og evrópska hagkerfið almennt, auk þess að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins , sen er bráðnauðsynlegt við núverandi aðstæður“.
Seðlabankinn getur bannað arðgreiðslur
Kjarninn fjallaði ítarlega um arðgreiðslur og möguleg kaup á eigin bréfum banka í fréttaskýringu sem birtist á laugardag. Þar kom fram að enn sem komið er þá hefur Seðlabanki Íslands einungis hvatt viðskiptabankanna til að „sýna þá samfélagslegu ábyrgð á þessum sérstöku tímum að nýta ekki það svigrúm sem aflétting sveiflujöfnunaraukans skapar til þess að greiða út arð.“
Þá þarf fjármálafyrirtæki, eins og banki, alltaf að fá fyrir fram samþykki Fjármálaeftirlitsins Seðlabankans fyrir endurkaupum á eigin hlutum og lækkun hlutafjár og hefur Fjármálaeftirlitið talsvert svigrúm við mat á veitingu slíks samþykkis.
Á skömmum tíma hefur bindiskylda verið lækkun niður í núll og sveiflujöfnunarauki sem lagðist á eigið fé bankanna afnumin. Aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka á að auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna, eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni.
Það er þó ekkert sem segir til um að það svigrúm sem skapist verði ekki nýtt til annarra verka, eins og að greiðast út til hluthafa.
Arion banki ætlar enn að greiða arð
Íslenska ríkið á tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Þann 20. mars síðastliðinn var sent bréf til Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhald ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, fyrir hönd Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þar var farið fram á að hún myndi horfa fram hjá kröfum um ávöxtun og arðgreiðslur á árinu 2020 og að þeim skilaboðum yrði komið áfram til stjórna fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins.
Enn eru hins vegar uppi áform um arðgreiðslur og möguleg endurkaup á eigin bréfum hjá Arion banka, sem er í einkaeigu. Á aðalfundi bankans 17. mars síðastliðinn var samþykkt að fresta tíu milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa um tvo mánuði, eða fram í miðjan maí. Auk þess var heimild stjórnar til að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé bankans endurnýjuð.
Arion banki hefur enn sem komið er ekki endurskoðað sín áform um að greiða út arð í maí. Í tilkynningu sem bankinn sendi til Kauphallar Íslands 27. mars síðastliðinn, vegna aðgerða sem hann hefur gripið til vegna COVID-19, kemur þvert á móti fram að eiginfjár- og lausafjárstaða bankans sé mjög sterk án þess að tillit sé tekið til „fyrirsjáanlegrar arðgreiðslu að fjárhæð 10 milljarða króna“. Þar sagði enn fremur að auk ákvörðunar um að fresta arðgreiðslu í tvo mánuði myndi bankinn „ekki fara í frekari kaup á eigin bréfum fyrr en óvissa vegna heimsfaraldursins hefur minnkað.“