Íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær úr COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Sex manns hafa nú látist eftir að hafa smitast af sjúkdómnum hér á landi.
Á vestfirska vefmiðlinum Bæjarins besta segir að maðurinn sem lést hafi heitið Gunnsteinn Svavar Sigurðsson. Hann var fæddur árið 1938.
Tveir íbúar á Bergi til viðbótar eru sýktir af sjúkdómnum og þrír eru í einangrun og bíða niðurstöðu úr sýnatöku. Fimm íbúar á hjúkrunarheimilinu eru í sóttkví án einkenna.
Meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu eru í einangrun, þar af fimm með staðfest smit. Aðrir fastir starfsmenn utan þriggja eru í sóttkví og er heimilinu því sinnt nær eingöngu af fólki úr bakvarðasveit eða öðrum deildum stofnunarinnar, samkvæmt tilkynningu heilbrigðisstofnunarinnar.
Óskað hefur verið eftir bæði sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum úr öðrum landshlutum til starfa á hjúkrunarheimilinu og einnig á bráðadeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Slíkur liðsafli hefur þegar borist úr bakvarðasveit og von er á fleirum með þyrlu Landhelgisgæslunnar seinna í dag, ef veður leyfir.
„Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vottar aðstandendum samúð. Starfmönnum og heimilisfólki óskum við skjóts bata og samfélaginu þökkum við aðstoð og velvilja. Einnig þökkum við fólki sem boðist hefur til starfa á stofnuninni sem hluti af bakvarðasveit,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.
Íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær úr Covid-19. Tveir eru sýktir af Covid og þrír heimilismenn í...
Posted by Heilbrigðisstofnun Vestfjarða on Monday, April 6, 2020