Alma Möller landlæknir ítrekaði á daglegum blaðamannafundi í dag að engin sértæk meðferð væri við kórónuveirunni. „Sem betur fer eru samt mörg lyf til skoðunar og þess vegna er gjörgæslumeðferð ein og sér ekki lækning.“
Hún sagði að gjörgæslumeðferð væri ætlað að styðja við starfsemi líffæra, til að mynda með öndunarvél og lyfjum, á meðan líkaminn væri að vinna á veirunni.
„En því miður þá gengur það ekki alltaf og tölur erlendis frá benda á að það sé töluverð dánartíðni meðal þeirra sem lagst hafa inn á gjörgæslu. En við vitum líka að heilbrigðisstarfsfólk og vísindamenn um allan heim leggja kapp á að þróa meðferð og menn eru stöðugt að læra,“ sagði Alma.
Verðum að hlúa hvert að öðru
Þá sagði landlæknir það vera alveg ljóst að róðurinn myndi þyngjast næstu vikurnar og að fleiri myndu veikjast og látast. „Þessi faraldur mun taka sífellt meira á okkur, andlega og tilfinningalega og við þurfum því – eins og við höfum alltaf sagt – að hlúa hvert að öðru og að sjálfum okkur.“
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru sex látin. Tveir létust í gær, karlmaður á níræðisaldri sem var íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og karlmaður á sjötugsaldri sem lá á Landspítalanum.