„Þetta verða skrítnir páskar,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna í dag en heilbrigðisyfirvöld hafa hvatt Íslendinga til að vera heima um páskana. Þá voru landsmenn jafnframt hvattir til að vera heima um síðustu helgi en eitthvað hefur sú hvatning farið framhjá sumum.
„Var helgin ekki bara ágætis æfing? Við vorum að tala um það að vera heima um helgina og við erum að tala um það að vera heima um páskana. Það voru opnaðar fjöldahjálparstöðvar fyrir Íslendinga sem festust uppi á heiðum og þurfi að bjarga nánast 100 Íslendingum um helgina. Er þetta ekki bara komið gott?
Eigum við ekki bara að slaka á núna heima og taka páskana bara í rólegheitunum í fjarfundi með stórfjölskyldunni, matarboð með vinunum í gegnum fjarfundi og njótum návistar við okkar nánustu?“ spurði hann.
Víðir hvatti fólk enn fremur til að vera áfram gott við hvort annað „og höldum áfram að vera ábyrg. Þá tekst okkur að komast í gegnum þetta“.
Þurfum að hlúa að hvert öðru
Alma Möller landlæknir sagði á fundinum það vera alveg ljóst að róðurinn myndi þyngjast næstu vikurnar og að fleiri myndu veikjast og látast. „Þessi faraldur mun taka sífellt meira á okkur, andlega og tilfinningalega og við þurfum því – eins og við höfum alltaf sagt – að hlúa hvert að öðru og að sjálfum okkur.“
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru sex látin. Tveir létust í gær, karlmaður á níræðisaldri sem var íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og karlmaður á sjötugsaldri sem lá á Landspítalanum.