Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.586 hér á landi. Í gær voru þau 1.562 og hefur þeim því fjölgað um 24 á einum sólarhring. Í dag eru 4.407 manns í sóttkví og hefur þeim fækkað verulega síðan í gær. Alls hefur 13.531 einstaklingur lokið sóttkví.
Í dag er 1.021 einstaklingur með virkt COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 1.096. Alls hafa 559 náð bata.
23 ný smit greindust í þeim 235 sýnum sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Af 877 sýnum sem tekin voru hjá Íslenskri erfðagreiningu fannst eitt nýtt smit. Alls hefur 28.991 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Enn er yfir helmingur þeirra sem greinast með sýkingu í sóttkví sem sóttvarnalæknir hefur sagt sýna mikilvægi þeirrar aðgerðar við að hefta úbreiðslu veirunnar.
Á sjúkrahúsi liggja 39 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af þrettán á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru sex látin.
Spá því að 140 þurfi að leggjast inn á sjúkrahús
Nú er gert ráð fyrir því að rúmlega 2.100 manns muni greinast með COVID-19 hér á landi í þessari bylgju faraldursins, en talan gæti náð 2.600 samkvæmt svartsýnni spá. Þetta kemur fram í uppfærðri forspá vísindamanna Háskóla Íslands, Landspítala og landlæknisembættisins, sem miðast við gögn til og með 5. apríl.
Gert er ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem eru með virkan sjúkdóm nái hámarki í þessari viku og að þeir verði um 1.400 talsins. Samkvæmt svartsýnni spá gæti þó farið svo að toppnum verði ekki náð fyrr en í næstu viku og að 1.700 einstaklingar hafi þá virkan sjúkdóm á sama tíma.
Samkvæmt nýjustu gögnum er gert ráð fyrir því að á meðan þessi bylgja faraldursins fer yfir þurfi 140 manns að leggjast inn á sjúkrahús, en fjöldinn gæti náð hátt í 170 manns. Mest álag á heilbrgiðisþjónustu verður fyrir miðjan apríl, en þá er gert ráð fyrir að um það bil 70 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnni spá er 90 einstaklingar.
Uppfærð forspá gerir ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni 28 einstaklingar veikjast alvarlega og þurfa gjörgæsluinnlögn, en svartsýnni spá gerir ráð fyrir því að þessir sjúklingar verði allt að 41 talsins.
Mestu álagi á gjörgæsludeildir er spáð í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 11 sjúklingar liggi á gjörgæslu á sama tíma, en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 19 manns.