Landsvirkjun hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag, en þar hafði blaðið meðal annars eftir ónafngreindum heimildarmönnum sínum að Rio Tinto íhugi að leggja niður starfsemi sína í Straumsvík í tvö ár og að fyrirtækið sé einnig að undirbúa möguleg málaferli gegn Landsvirkjun, sem ætluð væru til þess að losa fyrirtækið undan raforkusamningnum við fyrirtækið.
Í yfirlýsingu Landsvirkjunar, sem undirrituð er af Herði Arnarsyni forstjóra, segir að þarna fari heimildarmenn blaðsins með „fullyrðingar sem aldrei hafa komið fram í viðræðum fyrirtækjanna“ og það geti fulltrúar Rio Tinto í þeim viðræðum staðfest. Sem kunnugt er ræða Landvirkjun og Rio Tinto nú um kröfu álframleiðandans um lækkað raforkuverð til verksmiðjunnar í Straumsvík.
Í frétt Morgunblaðsins kom einnig fram og haft eftir heimildum innan úr Rio Tinto, að framlenging kjarasamnings starfsmanna álversins hafi verið bundin því skilyrði að nýr raforkusamningur á milli Rio Tinto og Landsvirkjunar yrði endurskoðaður.
„Það sætir auðvitað furðu, ef rétt er, að alþjóðlega risafyrirtækið Rio Tinto hafi skilyrt kjarasamninga við starfsmenn sína á Íslandi aðgerðum fyrirtækis í eigu íslensku þjóðarinnar, sem hefur ekkert með þá kjarasamninga að gera,“ segir í yfirlýsingu Landsvirkjunar um það efni.
Morgunblaðið fjallaði um rekstrarniðurstöðu álversins í Straumsvík í frétt sinni, en samkvæmt ársreikningi sem birtur var í lok marsmánaðar nam tap fyrirtækisins af rekstri síðasta árs um 13 milljörðum króna.
Landsvirkjun segir í yfirlýsingu sinni að í fréttum af erfiðleikum Rio Tinto og taprekstrinum í Straumsvík undanfarin ár sé því hins vegar „sjaldan haldið á lofti að álverið hér greiddi móðurfélagi sínu 130 milljónir dollara í arð árið 2017“ og bætir við að sú arðgreiðsla hafi á þeim tíma verið „hærri en samanlagðar skattgreiðslur og allur arður Landsvirkjunar frá upphafi til eiganda síns, íslensku þjóðarinnar.“
Málaferli sögð möguleg vegna kórónuveiru og upprunavottorða
Í frétt Morgunblaðsins sagði að málaferli gegn Landsvirkjun væru inni í myndinni af hálfu Rio Tinto. Meðal annars væri til skoðunar hvort áhrif kórónuveirunnar á stöðu álmarkaða væri slík að það gæti talist „force majeur“ og Rio Tinto gæti þannig hreinlega lokað álverinu í Straumsvík án þess að greiða upp raforkusamninginn.
Einnig nefndu heimildarmenn Morgunblaðsins að mögulega gæti farið svo að Rio Tinto myndi bera fyrir sig vörusvikum vegna sölu Landsvirkjunar á upprunavottorðum. Landsvirkjun segir að þarna beri frumlegir heimildarmenn blaðsins fyrir sig „ómerkilegu bragði“.
„Frumlegasta fullyrðing heimildarmanna Morgunblaðsins er sú, að álverið í Straumsvík ætli í mál þar sem orkan til álversins sé ekki frá vatnsaflsvirkjunum, eins og um hafi verið samið. Samkvæmt raforkureikningum sé orkan í raun frá kola- og kjarnorkuverum og því um vörusvik að ræða gagnvart Rio Tinto. Þarna beita heimildarmennirnir því ómerkilega bragði að ýta undir algengan misskilning um eðli svokallaðra upprunavottorða, sem Landsvirkjun selur og skapa fyrirtækinu og þar með íslensku þjóðinni auknar tekjur af auðlind sinni,“ segir í yfirlýsingu Landsvirkjunar.
Þar er einnig minnt á að Landsvirkjun fór um miðjan febrúar fram á að trúnaði yrði aflétt af samningnum við Rio Tinto, svo hægt væri að tryggja gagnsæi í umræðum um hann. „Rio Tinto hefur ekki enn orðið við því,“ segir í yfirlýsingu Landsvirkjunar.
Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi segir við Kjarnann að hann geti ekkert tjáð sig um það sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins í dag.