Bæði rannsóknir og reynsla landanna í kringum okkur sýnir að hættan á heimilisofbeldi eykst í ástandi eins og núna er í samfélaginu, sagði Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins á daglegum upplýsingafundi yfirvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Hún sagði að því miður væri ýmislegt sem benti til þess að svo væri hér líka, en tvö andlát kvenna, eitt í Sandgerði fyrir mánaðamót og annað í Hafnarfirði um helgina, eru til rannsóknar sem sakamál.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í morgunþætti Ríkisútvarpsins í morgun að útlit væri fyrir að í báðum tilfellum væri um hræðileg heimilisofbeldismál að ræða.
Sigþrúður beindi orðum sínum til gerenda, þeirra sem hefðu áður í lífi sínu beitt ofbeldi í nánu sambandi.
„Hvert okkar sem þekkir sig í þeim aðstæðum að hafa ekki fundið aðra leið til að leysa ágreining eða koma óánægju sinni á framfæri eða halda stjórninni á heimilinu eða eitthvað slíkt, enga aðra leið nema að beita svívirðingum eða hótunum eða líkamlegu ofbeldi, að leita sér hjálpar. Vegna þess að hafi það gerst einu sinni eru líkur á að það gerist aftur og við erum í áhættu varðandi þetta, akkúrat núna,“ sagði Sigþrúður og benti meðal annars á úrræðið Heimilisfrið, sem sérhæfir sig í meðferð fyrir karla og konur sem beita ofbeldi.
Úrræðin standa galopin
Hún talaði einnig til þolenda og benti þeim á þau úrræði sem eru í boði. Kvennaathvarfið er opið, glaðlegt, hreint og smitfrítt líka, sagði Sigþrúður, en áætlanir eru til staðar um hvað skuli gera ef það breytist.
Sigþrúður sagði að þau samtök sem starfa fyrir þolendur ofbeldi, eins og Kvennaathvarfið, Bjarkahlíð, Bjarmahlíð, Aflið á Akureyri, Drekaslóð og Stígamót, hafi áhyggjur af því að fólk veigri sér við að leita í úrræðin á þessum tímum.
„Við höfum áhyggjur af því að okkur takist ekki að hjálpa þeim sem helst þurfa á hjálpinni að halda, en ég vil láta vita að þessi úrræði eru galopin sem fyrr, þó að þau hafi ef til vill þurft að breyta þjónustu sinni eitthvað. Öll erum við af vilja gerð til að leysa vandann,“ sagði Sigþrúður.
Mikilvægt að börn búi ekki við ofbeldi
„Við erum öll barnavernd,“ sagði Alma Möller landlæknir á fundinum og Sigþrúður ræddi einnig um stöðu barna á ofbeldisheimilum.
„Það er mikilvægt að hafa í huga að börn á ofbeldisheimilum hafa ekkert val, þau eru bara þar sem börn eiga að vera,“ sagði Sigþrúður og bætti við að flestir foreldrar í ofbeldissamböndum stæðu í þeirri trú að börnin þeirra yrðu ekki fyrir áhrifum af ofbeldinu á heimilinu. Það væri rangt.
Hún sagði mikilvægt að börn hefðu einhvern sem þau treystu og gætu leitað til og kannski væri erfitt fyrir þau núna, á tíma samkomubanns, að nálgast þá manneskju. Það mikilvægasta sem við gætum gert núna, væri að koma í veg fyrir að börn séu staðsett á ofbeldisheimilum.
„Ef við sjáum eitthvað þá segjum við eitthvað og látum vita af því,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, sem minnti á að í þessum efnum eins og öðrum yrði þjóðin að standa saman og passa upp á næsta mann.