Vegna sóttvarnaráðstafana í fiskvinnslum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa, dótturfélags Samherja, eru starfsmenn þar nú í 50 prósent starfshlutfalli og vinna annan hvern dag.
Samherji nýtir sér þannig hlutabótaúrræði stjórnvalda, en fyrirtækið ætlar sér samt að tryggja að starfsfólkið verði ekki fyrir nokkurri launaskerðingu vegna þessa, samkvæmt svari Björgólfs Jóhannssonar, starfandi forstjóra fyrirtækisins, við fyrirspurn Kjarnans.
„Breytt starfshlutfall er til komið vegna aukinna krafna um sóttvarnir en markmiðið er að minnka líkur á að smit berist á milli fólks og tryggja að starfsfólk líði sem best þannig að það geti sinnt starfi sínu í sem mestu öryggi,“ segir í svari Björgólfs, sem bætir við að Samherji geri sér ekki grein fyrir því hversu lengi ástandið vari, en hlutabótaúrræði stjórnvalda er ætlað að gera fyrirtækjum sem verða fyrir áhrifum á reksturinn kleift að halda ráðningarsambandi við sem flesta starfsmenn.
„Það er því að okkar mati ábyrgðarhluti að bregðast strax við með viðeigandi hætti og gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja áframhaldandi starfsemi félagsins á meðan og eftir að þessu ástandi lýkur. Með því að nýta þetta úrræði er okkar starfsfólk öruggara á vinnustað, auk þess sem farið er að tilmælum yfirvalda, sem ekki er hægt með alla starfsmenn í húsinu í einu. Við höfum sagt að við ætlum að tryggja að okkar starfsfólk verði ekki fyrir skerðingu launa af þessum sökum,“ segir einnig, í svari forstjórans.
Samherji er eitt stærsta fyrirtæki landsins, eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í Evrópu og hefur vaxið gríðarlega undanfarinn rúman áratug. Í árslok 2018 nam eigið fé Samherjasamstæðunnar, sem samanstendur af Samherja hf. og Samherja Holding, 111 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun hafa yfir 30 þúsund manns þegar sótt um hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls, fjöldi sem nemur yfir 15 prósent starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Þar af hafa yfir tvö þúsund manns sótt um hlutabætur á starfssvæði Samherja á Norðurlandi eystra.
Margt í gangi hjá Samherja á tímum heimsfaraldurs
Lækkað starfshlutfall hluta starfsmanna vegna sóttvarnaráðstafana í samkomubanni og samdráttur á útflutningsmörkuðum um allan heim eru ekki einu áhrifin sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á Samherjasamstæðuna.
Áætlun um að auka hlut félagsins í Eimskip fór út af sporinu og ástæða fannst einnig til þess að kalla Þorstein Má Baldvinsson aftur að daglegum rekstri félagsins.
Þann 10. mars, skömmu áður en ljóst var hversu gríðarleg áhrif faraldurinn myndi hafa á efnahagslíf víða um heim jók Samherji hlut sinn í Eimskip yfir 30 prósent og þá myndaðist yfirtökuskylda á hendur fyrirtækinu. Tíu dögum síðar, þegar fjármálamarkaðir heimsins voru komnir í uppnám, óskaði fyrirtækið eftir því við Fjármálaeftirlitið að fá heimild til að falla frá yfirtökuskyldunni og á það var fallist, eins og rakið var í fréttaskýringu Kjarnans á dögunum.
Þetta er einungis í þriðja sinn sem veitt er sérstök heimild af hálfu eftirlitsins fyrir því að félög sleppi undan yfirtökuskyldu og viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði sögðu að mörgum fjárfestum þætti ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ótrúleg. Einn komst þannig að orði að verið væri að sleppa Samherja af önglinum, en miðað við markaðsvirði Eimskips þegar Samherji fór yfir 30 prósent mörkin þá hefði það kostað samstæðuna 17,6 milljarða króna að kaupa út aðra hluthafa. Ef miðað er við gengi bréfa í félaginu daginn eftir, 11. mars, þegar þau hækkuðu skarpt, hefði kostnaðurinn verið 20 milljarðar króna.
Þann 27. mars, mitt í kórónuveirufaraldrinum og fárinu sem ríkir í samfélaginu hans vegna, tilkynnti Samherji að Þorsteinn Már Baldvinsson, sem „steig til hliðar“ sem forstjóri eftir umfjöllun innlendra og erlendra fjölmiðla um viðskiptahætti Samherja í Namibíu í haust, væri sestur aftur á forstjórastól hjá fyrirtækinu til þess að leiða viðbrögð fyrirtækisins við COVID-19 faraldrinum.