Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, leggur til að listamannalaun verði látin ná til tíu sinnum fleiri listamanna en þau gera nú, eða alls um 3.500 manns í stað 325 manns.
Listamannalaunin eru rúmlega 407 þúsund krónur á mánuði og þeim er úthlutað að mestu í þrjá til tólf mánuði til tónlistarflytjenda, tónskálda, rithöfunda, sviðslistafólks, myndlistarmanna og hönnuða. Í ár sóttu 1.544 um launin en 325 fengu þau, líkt og áður sagði.
Kostnaður ríkissjóðs við greiðslu listamannalauna er nú um 650 milljónir króna á ári. Í grein sem Ágúst Ólafur skrifar, og birtist á Vísi í morgun, leggur hann til að launin verði margföldum með því að þau nái til tíu sinnum fleiri en þau gera nú. Sá fjöldi, alls um 3.500 manns, er svipaður fjöldi og heildarumfang þeirra sem starfa sjálfstætt í menningu á Íslandi.
Segir starfsgrundvöll listamanna farinn
Ágúst Ólafur bendir á í greininni að Íslendingar hafið notið fjölmargra streymistónleika tónlistarfólks og segir að án listar sé mannfólk „nálægt því að uppfylla einungis einföldustu kröfur dýraríkisins“.
Nú sé staðan þannig að listafólkið sé í hættu þar sem búið sé að banna nær alla viðburði sem stétt listamanna reiði sig á. „Á þetta við leiksýningar, tónleika, árshátíðir, upptökur, bíósýningar og listasýningar en einnig ýmsan rekstur veitingahúsa og annarra staða sem bjóða upp á lifandi list af öllu tagi. Takmarkanir eru jafnvel á jarðarförum og brúðkaupum. Samkvæmt nýjustu fréttum verður bann á viðburðum hugsanlega langt eftir árinu og þar með talið bæjar- og menningarhátíðum sumarsins. Það yrði gífurlegt fjárhagslegt tjón fyrir tugþúsundir landsmanna.“
Listamenn þurfi því á hinu opinbera að halda þar sem starfsgrundvöllur þeirra sé farinn. „Ef listin á að lifa þurfum við hin því að gera eitthvað.“