Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir að þótt það séu erfiðir tímar þá gildi enn lög. ,,Ég hef oft heyrt í fréttum að ríkið hafi tapað máli og verið dæmt til greiðslu skaðabóta í kjölfarið en aldrei áður heyrt því hótað að skattleggja þá sem urðu fyrir skaðanum sérstaklega fyrir skaðabótunum. Ég er ekki löglærður en ég að held ég geti fullyrt að þessa lagatúlkun sé ekki að finna í lögbókum réttarríkja.“
Þetta segir Sigurgeir í Morgunblaðinu í dag en tilefnið er það að bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsháðherra, gagnrýndu sjö útgerðir sem stefnt hafa ríkinu og vilja fá 10,2 milljarða króna, auk vaxtagreiðslna upp á milljarða króna, vegna þess að þær telja sig hafa verið snuðaðar við úthlutun á makrílkvóta um nokkurra ára skeið. Vinnslustöðin er ein þeirra útgerða sem fer fram á að ríkið greiði sér skaðabætur.
Bjarni sagði á Alþingi í gær að ef svo ólíklega færi að ríkið myndi tapa málinu þá væri það einfalt mál í sínum huga að reikningurinn vegna þess verði ekki sendur á skattgreiðendur. „Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“
Sigurgeir segir að útgerðirnar hafi verið beittar rangindum og að þær, sem séu frumkvöðlar í makrílveiðum, geti ekki verið sökudólgar í málinu. Þvert á móti hafi útgerðirnar fært þjóðinni mikil verðmæti. Ríkið hafi beitt ólögmætri nálgun við úthlutun makrílkvóta á árunum 2011 til 2018 og fært slíkan frá þeim útgerðum sem hafi átt „lögboðinn rétt“ til annarra sem áttu hann ekki.
Ekkert gjald hefur nokkru sinni verið greitt fyrir úthlutun makrílkvóta. Í fyrravor var ákveðið að fastsetja úthlutun hans í lög án þess að endurgjald hafi verið tekið fyrir.
Krefjast 10,2 milljarða króna auk hæstu mögulegu vaxta
Kjarninn greindi frá því á laugardag að sjö útgerðir krefji íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna auk hæstu fáanlegu vaxta vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta.
Langhæsta krafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem krefst tæplega 3,9 milljarða króna auk vaxta úr ríkissjóði. Stærsti eigandi Ísfélagsins er Guðbjörg Matthíasdóttir. Félög í eigu Guðbjargar og fjölskyldu hennar eru einnig stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Eskja krefst þess að fá rúmlega tvo milljarða króna í bætur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúman milljarð króna og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst þess að fá tæpan milljarð króna auk vaxta. Huginn vill fá 839 milljónir króna og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar (Samherji er stærsti eigandinn) krefst 364 milljóna króna. Í stefnu Gjögurs er einnig krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015 til 2018.
Forsætisráðherra varð reið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í gær. Þar gerði hún kröfu útgerðanna að umtalsefni. „Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“