Helsti vandi hagstjórnar á Íslandi um þessar mundir er sá að búast má við að rekstrarerfiðleikar fyrirtækja haldi áfram þangað til bóluefni við veirunni sem veldur COVID-19 er fundið. Það gæti dregist fram á næsta ár, jafnvel sumarið 2021.
Þetta skrifar Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í grein sem birtist í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Búast megi við því að samdráttur verði á bilinu fjögur til sjö prósent í ár, og því svipaður og árið 1968, eftir að síldin hvarf af Íslandsmiðum, og árið 2009 í kjölfar fjármálahrunsins. Þessi tvö ártöl eru fræg í hagsögu Íslands.
Að sögn Gylfa mun samdrátturinn taka enda þegar sóttvarnir verða ekki lengur nauðsynlegar eftir að bóluefni hefur verið fundið.
Gylfi segir að Ísland geti notað landfræðilega einangrun sína til þess að prófa þá sem komi til landsins fyrir farsóttinni og setja þá í einangrun þangað til að bóluefni hefur verið fundið. „Slíkt myndi aftra þeim fáu erlendu ferðamönnum sem hingað vildu koma í sumar frá því að koma til landsins en skapa svigrúm fyrir aukna innlenda eftirspurn. Nú þegar áætlun um slökun á samkomubanni hefur verið birt væri gagnlegt að stjórnvöld birtu samhliða efnahagsáætlun um það hvernig hagkerfið verði örvað á næstu mánuðum. Slík örvun yrði í formi aukinnar innlendrar eftirspurnar, ekki einungis á vegum hins opinbera, heldur einnig í formi ferðaþjónustu sem markaðssetur sig innanlands.“