Samtals reiknaðist atvinnuleysi á Íslandi 9,2 prósent í marsmánuði og jókst um fimm prósentustig milli mánaða. Atvinnuleysi vegna almennra umsókna um atvinnuleysisbætur fór í 5,7 prósent en að auki jókst heildaratvinnuleysið um 3,5 prósentustig vegna þeirra sem sóttu um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Samtals voru um 38.600 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í lok mars, þar af um 24.400 í minnkuðu starfshlutfalli og ríflega 14.200 manns að auki á almennum atvinnuleysisbótum.
Þetta kemur fram í skýrslu um vinnumarkaðinn á Íslandi frá Vinnumálastofnun sem birt var í dag.
Lestu meira
Í skýrslunni segir að um 5.200 fyrirtæki hafi nýtt sér þennan möguleika fyrir samtals um 24.400 einstaklinga í marsmánuði. Auk þess sé gert ráð fyrir að allt að 6.500 fyrirtæki muni nýta sér þetta í allt á því tímabili sem hlutabótaleiðin er heimil, fyrir nálægt 35.000 launþega.
Atvinnuleysi í apríl mun verða allt að 17 prósent, samkvæmt spá Vinnumálastofnunar sem greint var frá á RÚV í gær. Inni í þeim tölum eru þeir sem hafa sótt um hlutabætur. Gangi sú spá eftir verður það langmesta atvinnuleysi sem mælst hefur á Íslandi.