Lífeyrissjóðurinn Birta ætlar að fara fram á það við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að það veiti frekari rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sinni að sleppa Samherja við yfirtökuskyldu í Eimskip.
Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag þar sem Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að sjóðurinn sé fyrst og fremst að hugsa um fordæmisgildið sem felist í því að veita Samherja undanþágu frá yfirtökuskyldunni, framtíðartúlkun á henni og hugtakinu „sérstakar aðstæður“ sem notað var til að rökstyðja ákvörðunina. „Í ljósi þess að fordæmin eru mjög fá og ólík finnst okkur að það þurfi að veita markaðinum fyllri upplýsingar.“
Birta á sex prósent hlut í Eimskip.
Hættu við á tíu dögum
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um málið eftir undanfarnar vikur. Það snýst um að Samherji Holding, annar hluti Samherjasamstæðunnar, keypti 3,05 prósent hlut í Eimskip 10. mars síðastliðinn. Við það fór eignarhlutur félagsins í flutningarisanum yfir 30 prósent og lögum samkvæmt myndaðist þá skylda á Samherja að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.
Ástæða þess er sú að þegar einn fjárfestir er farinn að ráða yfir meira en 30 prósent í félagi þá eru tök hans á því orðin svo mikil að þær aðstæður geta skapast að hann geti tekið ákvarðanir, og hrint þeim í framkvæmd, sem þjóna hagsmunum fjárfestisins, ekki félagsins eða annarra hluthafa. Því er um lykilskilyrði í lögunum sem ætlað er að vernda minni hluthafa fyrir því að stórir fjárfestar geti valdið þeim skaða.
Tíu dögum síðar, 20. mars, hafði staðan í heiminum breyst hratt. Þann dag sendi Samherji Holding Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskaði eftir að fá undanþágu frá yfirtökuskyldunni sem hafði myndast. Sú undanþágubeiðni var rökstudd vegna þeirra „sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu Covid-19. Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að veita slíka undanþágu ef sérstakar ástæður mæla með því.“
Þremur dögum síðar seldi Samherji 2,93 prósent hlut í Eimskip. Sú sala gerði það að verkum að atkvæðavægi Samherja í Eimskip fór niður í 29,99 prósent, eða í hæsta mögulega fjölda atkvæða sem halda má á án þess að mynda yfirtökuskyldu. Ekki liggur fyrir keypti þann hlut.
Vísuðu í tvö ólík fordæmi
Daginn eftir að Samherji seldi sig undir viðmiðunarmörk ákvað Eimskip að fella afkomuspá sína fyrir árið 2020 úr gildi vegna óvissunnar sem væri uppi vegna COVID-19.
Um síðustu mánaðamót ákvað Fjármálaeftirlitið svo að samþykkja beiðni Samherja Holding um að sleppa við yfirtökuskyldu. Virði bréfa í Eimskip voru í lok þess dags voru 2,2 prósent minna en það var þegar yfirtökuskyldan skapaðist. Síðan að undanþágan var veitt hefur verðið haldið áfram að falla og var í lok viðskipta á í gær var það 5,5 prósent lægra en 10. mars. Alls hefur um þriðjungur af virði Eimskips þurrkast út frá áramótum.
Kjarninn spurði Fjármálaeftirlit Seðlabankans hvort að ákvörðun sem þessi, að hleypa fjárfesti undan yfirtökuskyldu, ætti sér fordæmi. Í svari þess segir að áður hafi verið veitt tvívegis undanþága frá yfirtökuskyldu, en að þau mál séu ekki að öllu leyti sambærileg við mál Samherja. Bæði þau mál snerta Icelandair og snúast um sitt hvorn endann á endurskipulagningarferli þess þjóðhagslega kerfislega mikilvæga fyrirtækis eftir bankahrunið haustið 2008.
Fjármálaeftirlitið sagðist enn fremur ekki hafa upplýsingar um „huglæga afstöðu annarra hluthafa“ í Eimskip til ákvörðunar þess að heimila Samherja að losna undan yfirtökuskyldunni.