Þjóðaröryggisráð hefur ákveðið að koma á fót vinnuhóp til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag.
Í tilkynningunni segir að íslensk stjórnvöld séu nú í samstarfi við önnur EES-ríki um að sporna gegn upplýsingaóreiðu og rangfærslum í tengslum við COVID-19. „Sjaldan hefur verið mikilvægara að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum eins og nú í tengslum við þennan heimsfaraldur sem nú geisar.“
Í vinnuhópnum eru þau Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Kjartan Hreinn Njálsson frá Landlæknisembættinu, Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði, Anna Lísa Björnsdóttir, samskiptamiðlafræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður, María Mjöll Jónsdóttir frá utanríkisráðuneytinu, Sigurður Emil Pálsson frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu, Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, sem leiðir starf hópsins.
„Upplýsingamengun“ tiltölulega nýtt fyrirbæri
Kjarninn fjallaði um skýrslu sem kom út á vegum Evrópuráðs í september 2017 en hún gaf góða mynd af svokallaðri upplýsingaóreiðu þar sem farið var í saumana á samfélagshjúpum og bergmálsherbergjum. Með tilkomu samfélagsmiðla hafa hlutirnir breyst til muna og sagði í skýrslunni að nú værum við að horfa upp á algjörlega nýtt fyrirbæri sem lýsti sér í flóknum vef þar sem menguð skilaboð eru búin til, þeim dreift og þeirra neytt. Þau væru hýst á óteljandi vefþjónum og framleidd í feiknamiklu magni.
Í henni kom enn fremur fram að erfitt væri að meta áhrif slíkrar „upplýsinga-mengunar“ á fréttaefni enda væru sérfræðingar einungis á byrjunarstigi að skilja hvernig hún virkar. Eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum og Brexit-kosningar í Bretlandi stóð fólk til að mynda á gati enda komu úrslitin mörgum gríðarlega mikið á óvart.
Skýrsluhöfundar forðuðust að nota orðið falsfréttir vegna þess að þeir töldu það ekki ná yfir fyrirbærið og sögðu þeir að staðan væri mun flóknari en svo. Í öðru lagi hefðu stjórnmálamenn um allan heim notað orðið til að lýsa fréttum sem ekki eru þeim í hag.
Tilfinningar gegna lykilhlutverki
Gjaldfelling orða getur einmitt haft það í för með sér að upprunaleg merking brenglist og falskar fréttir verði til um falskar fréttir. Þess vegna er mikilvægt að nota orðið ekki um of og skella því á allar upplýsingar sem koma frá fréttastofum og miðlum.
Lykilatriðið, að mati skýrsluhöfunda, var að skilja hvernig samskipti virka á samfélagsmiðlum. Þau væru ekki einfaldlega upplýsingaskipti milli tveggja aðila. „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að tjáskipti hafa lykilhlutverki að gegna þegar koma á sameiginlegum skoðunum á framfæri. Ekki er aðeins um upplýsingar að ræða heldur drama - „framsetningu á þeim öflum sem takast á í veröldinni“,“ sagði í skýrslunni.
Áhrifamesta efnið er það sem spilar á tilfinningar fólks, þar sem ýtt er undir kenndir á borð við yfirburðatilfinningu, reiði og hræðslu. Ef slíkar tilfinningar eru til staðar þá deilir fólk frekar efni sín á milli og innan síns hóps. Tilfinningaþrungið efni dreifist hraðar og betur þar sem læk, deilingar og athugasemdir leika stórt hlutverk. Þetta gerist þrátt fyrir mótaðgerðir til að sporna við fölskum upplýsingum.