Í minnisblaði sem sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra er lagt til að allt fólk sem komi hingað til lands fari í sóttkví í tvær vikur. Einhverjar undanþágur verða þó heimilaðar frá því að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hingað til hafa aðeins Íslendingar og aðrir sem búsettir eru hér á landi þurft að fara í sóttkví eftir ferðalög erlendis.
Þórólfur sagði að hingað til hafi verið beitt svokallaðri sóttkví B í undantekningartilfellum. Hún felur í sér að fólk sem er að koma erlendis frá til sértækra og mikilvægra starfa er sett í sóttkví saman og þannig skermað af frá öðrum. Þessu verður væntanlega beitt áfram þegar nauðsyn krefur.
Þessi nýja sóttvarnaráðstöfun verður samkvæmt tillögunni í gildi til 15. maí. Að þeim tíma liðinum verður hún endurskoðuð með tilliti til þróunar faraldursins hér á landi sem og annars staðar í heiminum.
Heilbrigðisráðherra mun birta auglýsingu um þetta í dag eða á morgun, sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 15. maí er ekki langt í burtu, sagði hann. „Við vildum hafa þetta í tiltölulega afmarkaðan tíma í byrjun og sjá hvernig þróunin verður. Sjá hvort þurfi að framlenga eða gera eitthvað annað.“
Þórólfur sendi einnig annað minnisblað til ráðherrans í dag. Í því er að finna tillögur um ýmis atriði sem varða afléttingu takmarkana sem stefnt er að 4. maí. Tillögurnar snerta m.a. skólahald og íþróttastarf barna.