Íslendingurinn Róbert Spanó var í dag kjörinn forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann tekur við embættinu 18. maí næstkomandi. Fráfarandi forseti dómstólsins er Linos-Alexandre Sicilianos frá Grikklandi sem lauk níu ára skipunartímabili sínu í ár.
Róbert var kjörinn varaforseti dómstólsins fyrir rúmu ári síðan, eða 1. apríl 2019.
Hann var áður forseti sinnar dómdeildar frá því í maí 2017 og sat meðal annars í dómnum sem dæmdi íslenska ríkinu í óhag í Landsréttarmálinu svokallaða. Róbert sat í yfirdeild Mannréttindadómstólsins sem hlustaði á málflutning í málinu í febrúar síðastliðnum og mun sitja þar áfram eftir að hann tekur við sem forseti.
Róbert vann sem varadómari í héraðsdómi árin 1997-1998 og var lögfræðiráðgjafi og síðan aðstoðarmaður Umboðsmanns Alþingis frá 1998 til 2004. Hann var útnefndur Umboðsmaður Alþingis til bráðabirgða árið 2009 á meðan Tryggvi Gunnarsson starfaði í rannsóknarnefnd um bankahrunið. Róbert gegndi stöðu umboðsmanns til ársins 2013.
Árið 2009 var Róbert formaður nefndar sem falið var að taka íslensk umferðarlög til heildarendurskoðunar og semja frumvarp til nýrra umferðarlaga.
Róbert var skipaður lagaprófessor við Háskóla Íslands í nóvember árið 2006. Í september 2007 var hann kjörinn varaforseti lagadeildar skólands og var síðar forseti deildarinnar frá 2010 til 2013.
Róbert hóf níu ára tímabil sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu þann 1. nóvember árið 2013. Hann hefur skrifað mikið um mannréttindalög, stjórnlög, lagatúlkun og meðferð sakamála.
Mannréttindasáttmálinn lögfestur hér 1994
Ísland gekkst undir Mannréttindasáttmála Evrópu að þjóðarétti árið 1953 en samkvæmt tvíeðliskenningu þjóðaréttar hafði hann því ekki bein lagaleg áhrif hér á landi í rúm 40 ár eða fram að lögfestingu árið 1994. Í kjölfar lögfestingarinnar var mannréttindakafla stjórnarskrárinnar breytt árið 1995 í samræmi við sáttmálann. Mannréttindadómstól Evrópu er síðan ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum.
Dómar Mannréttindadómstólsins eru þó ekki bindandi að íslenskum landslögum og hafa þannig ekki bein og milliliðalaust réttaráhrif að íslenskum rétti. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að stjórnskipunarlögunum 1995 var þó reiknað með að dómar Mannréttindadómstólsins myndu hafa leiðsagnargildi við skýringu mannréttindaákvæða.