Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það koma til greina að æðstu embættismenn ríkisins taki á sig launaskerðingu við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þetta kom fram í svari hans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, spurði Bjarna hvort ekki væri eðlileg og sjálfsögð krafa að falla frá launahækkunum þingmanna og ráðherra eins og staðan væri í dag.
Fram kom í fréttum í byrjun apríl að laun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og annarra æðstu embættismanna hefðu hækkað um 6,3 prósent frá 1. janúar síðastliðnum.
Bjarni svaraði Halldóru og sagði að ekki væri verið að taka neina ákvörðun um launahækkanir þingmanna og ráðherra núna. „Alþingi hins vegar tók ákvörðun fyrir bráðum ári síðan að fresta launahækkun sem átti að koma til framkvæmda um mitt síðasta sumar til áramóta. Og í lögum stendur að laun þeirra sem háttvirtur þingmaður vísar til hafi hækkað 1. janúar,“ sagði hann.
Hann sagðist ekki vera að taka ákvörðun um þetta núna. „Nema þá að ég lagði til hérna fyrir þingið fyrir nokkru síðan að við myndum fresta hækkuninni sem á að koma til framkvæmda núna í sumar um sex mánuði. Það er þá í annað skiptið sem sú tillaga kemur fram á einu ári að við frestum launahækkunum til þingmanna sem hafa engar verið frá árinu 2016.“
Þingmenn og ráðherrar eftirbátar annarra þegar kemur að launahækkunum
Bjarni vildi vekja athygli á því að á vef fjármálaráðuneytisins hefði verið birt yfirlit yfir launaþróun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna og hefði hún verið sett í samhengi við launahækkanir annarra síðastliðinn rúma áratug.
„Það er alveg augljóst af þeim samanburði, sem er sá samanburður sem var lagður til grundvallar að samtali við vinnumarkaðinn á sínum tíma, að þingmenn og ráðherrar eru eftirbátar annarra þegar kemur að launahækkunum undanfarin áratug.
En það sem ég er orðinn leiður á að ræða þetta mál hér í þingsal. Að menn skuli ekki geta komið sér saman um það, yfir höfuð, að finna eitthvað fyrirkomulag sem lætur þessa hluti ganga sinn vanagang yfir árin,“ sagði Bjarni.
Hann benti enn fremur að kjaradómur hefði verið lagður niður, sem og kjararáð og að það væri stutt síðan ákveðið hefði verið að festa viðmið í þessum efnum í lög. „En það er ekki einu sinni búið að framkvæma eina einustu breytingu á lögunum síðan þetta var ákveðið áður en menn koma hingað í þingsal og ætla að slá sig til riddara með því að taka málin upp að nýju.“
Ætla þingmenn að vera í sama báti og almenningur?
Halldóra svaraði Bjarna og sagði að hún vildi geta sagt að henni þætti leiðinlegt að hafa pirrað hæstvirtan fjármálaráðherra en að henni þætti „það bara ekkert leiðinlegt.“
„Mér finnst leiðinlegur þessi orðhengilsháttur, að ég noti ekki rétt orð og það á einhvern veginn að lagfæra það. Þetta snýr ekki að því hvaða orð maður notar. Það stendur vissulega í lögum að það eigi að vera launahækkun þingmanna og ráðherra 1. janúar. Ég veit vel að það hefur átt sér stað. Spurning mín snýr hins vegar ekki að því,“ sagði hún og benti á að þetta væru ekki eðlilegir tímar.
Hún sagðist enn fremur vita að ráðherra hefði ekki tekið ákvörðun um þessar launahækkanir en að þau á Alþingi þyrftu samt sem áður að taka ákvörðun um það hvort þau ætluðu að vera í sama báti og almenningur eða hvort þau ættu að fá launahækkanir á meðan aðrir fengju skerðingar.
Svo hún spurði aftur: „Hver er afstaða hæstvirts fjármála- og efnahagsráðherra til þeirrar kröfu að þingmenn og ráðherrar hækki ekki í launum á sama tíma og við stefnum beinustu leið í djúpa efnahagskreppu? Eigum við ekki að vera í sama báti með öllum almenningi í landinu?“
Sanngjörn spurning
Bjarni kom aftur í pontu og sagði að hann vildi einungis að það væri alveg á hreinu að hann tæki enga ákvörðun um þessi mál og hefði ekkert lagt til við þingið annað en það að fresta næstu launahækkun. Hann endurtók að það hefði verði þingið sem hefði tekið þá ákvörðun að hækka launin um síðustu áramót.
Hann segist aftur á móti telja um sanngjarna spurningu að ræða hjá Halldóru. „Hvað finnst mér um það að æðstu embættismenn ríkisins tækju á sig launaskerðingar núna við þessar aðstæður til þess að sýna gott fordæmi og fylgja öðrum í samfélaginu?“ spurði hann og svaraði um hæl að honum fyndist það vel koma til greina.
„En það nýjasta sem við höfum reyndar gert í þessum efnum er að semja núna síðast við hjúkrunarfræðinga um launahækkanir, þar áður við sjúkraliða og þar áður við BHM og önnur opinber stéttarfélög. Á almenna markaðnum hefur þessi spurning verið borin upp og af stéttarfélögunum var því hafnað. Þannig að það er engin slík hreyfing í gangi nema hvað snertir þá sem tapa stafi sínu og það er mjög alvarlegt mál og þau mál erum við að ræða hérna í fjölmörgum þingmálum í þingsal. En mér finnst hins vegar vel koma til greina ef það tekst eitthvað alvöru samtal um það að fara í launafrystingar eða lækkanir þá ættu hinir opinberu embættismenn – þeir sem eru í æðstu stjórn ríkisins – að leiða þá breytingu, þá þróun,“ sagði ráðherrann.