Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.778 hér á landi. Í gær voru þau 1.773 og hefur þeim því fjölgað um fimm síðasta sólarhringinn.
Í dag eru 1.026 í sóttkví en í gær var fjöldinn 1.109. Alls hafa 18.253 lokið sóttkví. Þá er 351 einstaklingur með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 402. Alls hafa 1.417 náð bata.
Aðeins eitt af þeim staðfestu smitum sem greind hafa verið hér á landi er af óþekktum uppruna. Innanlandssmit eru 1.439 og 338 erlendis frá.
Alls hafa 43.831 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Í gær voru 113 sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og reyndust fjögur þeirra jákvætt. Hjá Íslenskri erfðagreiningu voru tekin 575 sýni og eitt var jákvætt.
Á sjúkrahúsi liggja 25 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af fimm á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin. Í fyrradag lést kona sem bjó á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Hún var á níræðisaldri. Þetta er annað andlátið á Bergi sem tengist faraldrinum.