Vinnumálastofnun hefur, sökum álags og tímaskorts, ekki óskað eftir neinum upplýsingum eða gögnum frá fyrirtækjum sem hafa skert starfshlutfall starfsmanna sinna um það af hverju fyrirtækin eru að ráðast í þessar aðgerðir. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri stofnunarinnar í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt frumvarpi um hlutabótaleiðina, sem samþykkt var á Alþingi fyrir mánuði síðan, er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir rökstuðningi frá vinnuveitendum sem lækka starfshlutfall starfsmanna sinna um það af hverju fyrirtækið þarf að grípa til þessara aðgerða.
Blaðamaður spurði Unni að því hvort þetta hefði verið gert, almennt eða í einstaka tilvikum, og ef svo væri, hvort slíkt eftirlit af hálfu Vinnumálastofnunar hefði leitt til þess að einhverjum umsóknum einstaklinga um hlutabætur hefði verið hafnað.
„Svarið við báðum þessum spurningum er nei. Frá gildistöku laganna hefur álag vegna mjög margra umsókna í þetta úrræði verið svo mikið að ekki hefur gefist tími til að stunda mikið eftirlit,“ segir Unnur í skriflegu svari sínu, en yfir 34 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur frá því að opnað var fyrir umsóknir fyrir um mánuði síðan.
Unnur segir að hjá Vinnumálastofnun hafi verið litið til þess að atvinnulífið er „býsna bágborið um þessar mundir“ og staðan hafi versnað hratt á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna. Eftirlitið hafi því ekki verið í forgangi.
„Við höfum lagt allt kapp á að koma fólki í greiðslukerfin okkar þar sem við vitum að samdrátturinn er mikill hjá stórum hópi fólks,“ segir Unnur.
Vinnumálastofnun hefur þannig ekki upplýsingar um hvort öll þau fyrirtæki sem eru nú með starfsmenn í skertu starfshlutfalli hafi sannarlega upplifað samdrátt í sínum rekstri eða takmarkanir vegna aðstæðna í samfélaginu. Að því hefur ekki verið spurt.
Í gær tilkynnti ríkisstjórnin að Vinnumálastofnun fengi allt að 100 milljóna króna fjárframlag til þess að ráða inn 35 nýja starfsmenn tímabundið til næstu sex mánaða, til að stofnunin fái betur ráðið við þau verk sem þar falla nú til vegna gríðarlegra áhrifa COVID-19 á atvinnulífið.
Dæmi til staðar um misnotkun hlutabótaúrræðisins
Ábendingar hafa borist um misnotkun á hlutabótaleiðinni, ekki mjög margar, en einhverjar. Meðal annars var greint frá því fyrr í mánuðinum að Samtök atvinnulífsins túlkuðu lögin á þann hátt að fyrirtækjum væri heimilt að segja upp fólki og láta ríkið greiða hluta af launum starfsmanna á uppsagnarfresti.
Vinnumálastofnun hefur gefið skýrt til kynna að slíkt sé misnotkun á úrræðinu. Samtök atvinnulífsins hafa sætt sig við þann skilning og eru hætt að ráðleggja aðildarfyrirtækjum samtakanna að það sé möguleg lausn.
Einnig hafa borist ábendingar um að fyrirtæki nýti sér hlutabótaleiðina en láti starfsmenn sína svo vinna lengri vinnudaga en lækkað starfshlutfall segir til um, sem bendir ekki til þess að samdráttur hafi orðið í þeim verkefnum sem fyrirtækið þarf að leysa.
Slíkt framferði var nokkuð til umfjöllunar í lok síðasta mánaðar og var þá fordæmt af stéttarfélögum og einnig Viðskiptaráði Íslands.
Markmiðið að hjálpa fyrirtækjum að viðhalda ráðningarsambandi
Samkvæmt greinargerð með frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um hlutabótaleiðina er markmiðið með hlutabótaleiðinni að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og mögulegt er, í stað þess að segja fólki upp.
Alls hafa 34.400 umsóknir borist um úrræðið, langflestar í lok mars, þegar opnað var fyrir úrræðið. Yfir 30 þúsund umsóknir hafa verið staðfestar.
Ríkisstjórnin reiknaði með því, samkvæmt kostnaðarmati sem byggt var á við framlagningu frumvarpsins, að ef 20 þúsund einstaklingar myndu sækja um hlutabætur vegan lækkaðs starfshlutfall myndi það kosta ríkissjóð 12,8 milljarða króna, að því gefnu að úrræðið væri í gildi frá 15. maí til 1. júní.
Ljóst er að umsækjendur um úrræðið eru þegar orðnir meira en 50 prósentum fleiri en gert var ráð fyrir í þessu kostnaðarmati, auk þess sem fram hefur komið í máli ráðherra að ljóst sé að hlutabótaleiðina verði að framlengja lengra fram á árið.