Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá því á Twitter í nótt að hann ætlaði sér að loka Bandaríkjunum fyrir fólki annarsstaðar að sem hefði hug á því að flytja til landsins, til dæmis til að starfa. Þetta segist hann ætla að gera til að verja bandarískt vinnuafl fyrir samkeppni erlendis frá þegar að efnahagur landsins fer að jafna sig af áhrifum sem hann hefur orðið fyrir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Trump skrifaði á Twitter að hann hygðist skrifa undir forsetatilskipun um að fresta öllum innflutningi fólks til Bandaríkjanna til að ná fram þessu markmiði sínu.
In light of the attack from the Invisible Enemy, as well as the need to protect the jobs of our GREAT American Citizens, I will be signing an Executive Order to temporarily suspend immigration into the United States!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 21, 2020
Ljóst má vera að tilskipunin mun ekki hafa nein teljandi áhrif til skamms tíma þar sem að 150 lönd í heiminum hafa þegar sett einhverskonar skorður á ferðalög og 50 lönd hafa algjörlega lokað landamærum sínum tímabundið. Auk þess eru miklar hömlur á allt efnahagslegt gangverk víðast hvar í heiminum sem dregur nær alveg úr líkum þess að fólk sé að flytja sig á milli landa í leit af störfum.
Forsetinn sætti þó strax mikilli gagnrýni vegna yfirlýsingarinnar fyrir að vera að nýta sér neyðarástand til að innleiða pólitíska hugmyndafræði sem hann aðhyllist og berst fyrir, en yfirstandandi aðstæður kalli ekki á. Í umfjöllun The New York Times er sagt að yfirlýsingin séu nýjasta tilraun Trump til að innsigla Bandaríkin frá umheiminum.
Umfang vegabréfsáritana sem veittar hafa verið til útlendinga sem vilja flytja til Bandaríkjanna hefur dregist verulega saman í valdatíð Trump. Árið 2016, þegar hann var kjörinn, voru 617.752 slíkar veittar. Í fyrra voru þær 462.422 og höfðu því dregist saman um fjórðung.
Í takti við áherslur hans frá upphafi
Forsetatíð Trump hefur einkennst mjög af auknum þjóðernislegum áherslum og ríkum vilja hans til að takmarka flæði innflytjenda til landsins. Hugmyndafræðin gengur út á að setja Bandaríkin í fyrsta sætið (e. „America first“) og að gera Bandaríkin stórkostleg að nýju (e. „Make America Great Again“). Á meðal helstu kosningaloforða hans voru að byggja múr við landamæri Mexíkó til að ná fram því markmiði. Sá múr hefur ekki verið reistur. Auk þess hefur Trump staðið í fjölda deilna við viðskiptalönd Bandaríkjanna um gildandi viðskiptasamninga þeirra á milli sem honum hefur fundist halla á sína landsmenn. Þar ber hæst að nefna nágrannanna Mexíkó og Kanada annars vegar og Kína hins vegar. Skýr vilji forsetans hefur verið að framleiðsla af ýmsum toga flytjist í auknum mæli heildrænt aftur til Bandaríkjanna, enda hefur hann notið mikillar hylli í þeim ríkjum þar sem iðnaður var áður undirstöðuatvinnuvegur en mörg störf hafa horfið til annarra landa samhliða alþjóðavæðingunni.
Á daglegum blaðamannafundi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, þar sem Trump fer iðulega mikinn um ýmis málefni, í gær talaði forsetinn meðal annars um að hann vildi að vörur yrðu fullgerðar aftur í Bandaríkjunum. Þ.e. að snúið yrði af þeirri braut alþjóðavæðingar að íhlutir yrðu framleiddir þar sem það er hagstæðast og getan til þess er mest, en þess í stað yrðu þeir allir framleiddir innan landamæra Bandaríkjanna.