„Það eru ívið meiri líkur á því en minni að sumarið verði í svalara lagi,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.is, beðinn um að rýna í langtímaspár til næstu þriggja mánaða.
Þetta voru ef til vill ekki fréttirnar sem landsmenn vildu fá á sumardaginn fyrsta eftir illviðri vetrarins í ýmsum skilningi. En ekki skal örvænta. Þetta eru aðeins spár og þær eru að auki háðar ýmsum óvissuþáttum. Góðu fréttirnar eru þær að ekkert hret er í kortunum næstu daga.
Ýmsar stofnanir gefa út langtímaspár til þriggja mánaða í senn. „Það getur verið gaman að skoða þessar spár en þær eru ekki alltaf réttar,“ bendir Einar á. „Evrópska reiknimiðstöðin rataði vel á þetta í vetur en það hefur ekki gengið eins vel með sumarspárnar hjá þeim undanfarin ár.“
Í spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar fyrir maí, júní og júlí kemur fram í sjónum í kringum landið er enn kuldi eftir veturinn. Það eigi sérstaklega við um hafsvæðin sunnan og suðaustan landsins. „Það verður einhver vorkoma í sjónum eins og alltaf,“ segir Einar, „en hins vegar er gert ráð fyrir því í þessum spáreikningum að sjávarkuldinn geti temprað dálítið hitastigið eins og hann gerir alla jafnan.“
Að auki er heldur minni hiti yfir landinu og norðanverðu Atlantshafi heldur en stundum áður. „Það hefur síðan áhrif á hitann á jörðu niðri þannig að samanlögðu þá eru frekar litlar líkur á því að sumarið fram að júlílokum ætli að gera einhverjar voðalegar rósir í hita. Það eru meiri líkur en minni á því að við munum fá hitatölur sem eru innan við meðalhita þessara mánaða síðustu tíu árin eða svo.“
Vindáttirnar geta breytt öllu
Ýmsir þættir geta haft áhrif þarna á svo ekki er öll nótt úti enn. „Það sem við sjáum ekki almennilega fyrir er hverjar verða ríkjandi vindáttir í sumar,“ bendir Einar á. „Vindáttirnar hafa svo mikið að segja hvað varðar hitastig og veður eftir landshlutum.“
Vísbendingar eru um það í spám Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar að austan- og norðaustan áttir gætu orðið heldur tíðari en aðrar vindáttir. Þýska veðurstofan túlkar gögnin með öðrum hætti og telur líkur á að meira verði um suðvestan áttir.
Já, vertu sæll vetur! Hér er örlítil viðvaranasinfónía í rauðum dúr með broti af því besta – eða versta - til að kveðja þig minn kæri. Við vitum að þú kemur aftur þannig að þú skalt ekkert vera að hafa fyrir því að senda okkur línu á meðan að þú ert í burtu. Í mesta lagi kannski eitt skeyti og þá bara sem fyrst svo að við höfum einhverja hugmynd um hvað þú verður lengi í burtu. Auðvitað eru góðar minningar um ágætis samverustundir inn á milli, en okkur finnst þú hafa verð full frekur á athygli í þetta skipti og óskum við þess að þú hugsir þinn gang. Það er ekki endalaust hægt að vísa ábyrgðinni á aðra, loftslagsbreytingarnar eru orðnar þreyttar á því. Við vonum að þú njótir fjarverunnar. Það biðja allir að heilsa og sérstakar kveðjur færðu frá jarðhræringunum.
Posted by Veðurstofa Íslands on Wednesday, April 22, 2020
Íbúar suðvesturhorns landsins ættu að vonast eftir því að austanáttir verði ráðandi. Sú vindátt heldur hafgolunni frá landi. „Vindáttir frá landi eru bestar að þessu leyti, hvar sem er við strendur landsins.“
En vindáttirnar eru sá þáttur í langtímaspánum sem háður er hvað mestri óvissu. „En þessi stóra mynd um frekar svalt umhverfi er nokkuð skýr.“
Einar segir að engin skýr merki komi fram í langtímaspám um úrkomu, hvorki að hún verði minni eða meiri en að meðaltali síðustu sumur. „Það er kannski til marks um óvissuna í þessu öllu saman.“
Ekkert hret í kortunum
Það er áreiðanlegra að horfa aðeins til næstu daga. Og útlitið til svo skamms tíma er ágætt. „Þetta góða vorveður sem hefur verið heldur jafnvel fram á morgun, föstudag. Síðan er að sjá dálitla háloftalægð sem fer yfir landið um helgina. Það er nú enginn sérstakur kuldi sem fylgir henni en það verður meira um skúrir og gæti orðið næturfrost, sérstaklega aðfaranótt sunnudags.“
En í kjölfarið er svo aftur að vænta hægláts veðurs. „Þannig að það er ekki að sjá nein hret í kortunum fram í næstu viku.“
Veturinn sem nú er loks liðinn einkenndist af því hversu illviðrasamur hann var, segir Einar. „Það var mikið um djúpar lægðir og þegar á leið var snjóþungt, sérstaklega á Norður- og Austurlandi og Vestfjörðum.“
Hann segir að vetrarveðráttan hafi haldið alveg fram í fyrstu viku apríl. „Þá urðu skýr umskipti. Og ef við sleppum alveg við hret, sem mér finnst nú reyndar ólíklegt, þá eru þetta sérstaklega skörp skil vetrar og vors.“