Mikill meirihluti almennings fylgdi tilmælum almannavarna strax í upphafi. Trú almennings á aðgerðirnar og að þær myndu skila árangri var sömuleiðis mjög sterk, jafnvel á meðan faraldurinn var í fullum vexti. Þetta gerðist jafnvel þótt sektir og lögregluafskipti hafi verið sjaldgæf og að mun meiri áhersla hafi verið á að höfða til borgaralegrar skyldu en beitingu viðurlaga.
Þetta kemur fram í nýjum niðurstöðum könnunar á þátttöku og afstöðu Íslendinga til aðgerða almannavarna, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur unnið að í samstarfi við fræðafólk á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
Enn fremur segir að samhliða opinni upplýsingagjöf hafi verið lögð áhersla á ávinning samfélagsins af aðgerðunum, frekar en á ávinning einstaklinga. Slagorð aðgerðanna, „við erum öll Almannavarnir“ sé dæmi um hvernig send hafa verið skilaboð um að yfirvöld og almenningur séu á sama báti. Útbreidd þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum sé líkleg til að hafa átt veigamikinn þátt í hægum vexti faraldursins.
Mikilvægar spurningar um hegðun almennings á tímum óvissu og hættu
Í grein á Vísindavef Háskóla Íslands, þar sem niðurstöðurnar eru kynntar, er ferlið rakið. „Þegar fyrsta smitið af COVID-19 sjúkdómnum greindist á Íslandi föstudaginn 28. febrúar höfðu almannavarnir stjórnvalda skipulagt samhæfða aðgerðaráætlun til að hægja á útbreiðslu faraldursins hérlendis. Fyrst um sinn fólu aðgerðirnar í sér að einangra smitaða einstaklinga og setja þá sem sýndu einkenni eða höfðu verið á áhættusvæðum erlendis í 14 daga sóttkví. Tveimur vikum síðar, 13. mars, var sett á samkomubann og þann 24. mars var samkomubannið hert verulega; ekki máttu fleiri en 20 manns safnast saman og líkamsræktar- og sundstöðum var lokað, auk ýmissa annarra takmarkana. Enn fremur fylgdu leiðbeiningar og tilmæli til almennings ekki aðeins um handþvott heldur var almenningur beðinn um að takmarka samskipti og halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki búa saman á heimili.“
Samkvæmt höfundunum, sem eru þau Ari Klængur Jónsson, verkefnastjóri á Félagsvísindastofnun, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ, Magnús Þór Torfason, lektor við viðskiptafræðideild HÍ, Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ og Ævar Þórólfsson, verkefnastjóri á FélagsvísindastofnunÞessir, vekja þessir tímar upp mikilvægar spurningar um hegðun almennings á tímum óvissu og hættu. Ljóst hafi verið frá upphafi að samkomubannið og leiðbeinandi tilmælin yrðu íþyngjandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og atvinnulíf. Engu að síður hafi aðgerðirnar falið í sér þá forsendu að unnt væri að fá mikinn meirihluta almennings til þess að breyta daglegu lífi sínu í einu vetfangi á grundvelli vísindalegra væntinga um árangur opinberra aðgerða í fordæmalausu óvissuástandi.
„Afar mikilvægt er að kortleggja hegðun og afstöðu almennings með tilliti til þessara aðgerða, á meðan faraldurinn hefur gengur yfir. Sú vitneskja verður ekki síst verðmæt eftir að faraldurinn hefur gengið yfir og vísindafólk fer í þá vinnu að meta árangur aðgerðanna,“ segir í greininni.
Könnunin var send til 400 einstaklinga á hverjum degi og þannig var hægt að greina hvernig afstaða Íslendinga breyttist yfir tíma. Þegar greinin var skrifuð, mánudagur 20. apríl, virtist fyrsta bylgja COVID-19 vera í rénum. Hápunktur í aukningu smita var í seinustu viku marsmánaðar en hápunktur virkra smita var 5. apríl. Niðurstöður segja til um þróun í þátttöku í og afstöðu almennings til sóttvarnaraðgerðanna dagana 1. til 19. apríl.
Aðgerðirnar taldar trúverðugar
Fram kemur hjá greinarhöfundum að til þess að hámarka trúverðugleika aðgerða og efla áhrif þeirra hafi þeir sérfræðingar sem að aðgerðum stóðu mætt á daglega blaðamannafundi og sagt frá stöðunni, farið yfir þær forsendur sem þeir störfuðu eftir og setið fyrir svörum fjölmiðlafólks sem oft spurði gagnrýnna spurninga.
Niðurstöður benda til þess að aðgerðirnar hafi fengið afar mikinn trúverðugleika, jafnvel á meðan faraldurinn var ennþá í verulegum vexti. Allt frá 1. apríl hefur mikill meirihluti svarenda, yfir 95 prósent, haft þá trú á að sóttvarnaraðgerðir myndu „mjög líklega“ eða „frekar líklega“ skila þeim árangri að hægja verulega á faraldrinum. Eins og við mætti búast eykst fjöldi þeirra sem segja það „mjög líklegt“ eftir að faraldurinn byrjar að réna undir lok tímabilsins, en þá skoðun hafa 70 prósent svaranda í nýjustu mælingunni frá 19. apríl.
Meirihluti almennings tók tilmæli almannavarna alvarlega
Í greininni segir að það að fólk hafi trú á aðgerðunum tengist óneitanlega því hvort að fólk álíti það mikilvægt að fylgja tilmælunum og upplifun þess á hvort aðrir geri slíkt hið sama. Niðurstöður benda sterklega til þess að mikill meirihluti almennings hafi tekið tilmæli almannavarna alvarlega, en tæplega 90 prósent svarenda hafa fylgt þessum tilmælum að frekar miklu eða öllu leyti allt tímabilið sem skoðað er.
Einstaklingar líklegri til þess að taka þátt þegar þeir telja að þátttaka annarra sé útbreidd
Enn fremur segja greinarhöfundar að ítrekað hafi sannast í rannsóknum í félagsvísindum að einstaklingar séu jafnan miklu líklegri til þess að taka þátt í atferli eða starfsemi þegar þeir telja að þátttaka annarra sé útbreidd. Þegar einstaklingar telja marga aðra vera að taka þátt verði þeir líklegri til þess að líta svo á að þátttakan sé ekki aðeins sjálfsögð og eðlileg heldur siðferðilega rétt. Niðurstöðurnar sem koma fram á myndunum hér að neðan eru eftirtektarverðar í þessu tilliti, samkvæmt greinarhöfundum.
Fyrri myndin sýnir að milli 71 og 85 prósent svarenda hafi þá upplifun að þeir aðilar sem þeir eru í mestum samskiptum við fylgi tilmælum almannavarna að mjög miklu eða öllu leyti. En mikið dregur úr þessu hlutfalli þegar svarendur eru spurðir um hegðun allra annarra í samfélaginu; en einungis á milli 34 og 47 prósent svarendanna töldu að Íslendingar almennt væru að fara eftir tilmælunum að miklu eða öllu leyti.