Guðmundur Franklín Jónsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta Íslands. Í ræðu sem hann flutti í gegnum Facebook í morgun kom fram að það væri gert eftir nokkra íhugun og mikla hvatningu. Framboð hans muni í meginþáttum snúast um að efla forsetaembættið, nýta málskotsréttinn og leggja hans af mörkum til að berjast gegn spillingu. Hann bauð sig líka fram til forseta árið 2016 en dró þá framboð sitt til baka nokkrum vikum síðar og lýsti yfir stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson, sem hætti stuttlega við að hætta við að sækjast eftir endurkjöri. Ólafur Ragnar dró svo framboð sitt til baka og var ekki í framboði þá um sumarið.
Guðmundur Franklín stofnaði og var formaður í stjórnmálaflokknum Hægri grænum, sem bauð fram í þingkosningum 2013, en var nokkuð frá því að ná inn á þing. Flokkurinn var lagður niður 2016 og rann inn í Íslensku þjóðfylkinguna. Guðmundur Franklín gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir þingkosningarnar 2016 en hlaut ekki brautargengi. Í fyrra tók hann virkan þátt í baráttuhópnum Orkan okkar, sem lagðist gegn samþykkt hins svokallaða þriðja orkupakka.
Hann hefur starfað sem hótelstjóri á Hotel Klippen í Gudhjem á Borgundarhólmi í Danmörku frá árinu 2013 og því ekki búið á Íslandi árum saman.
Ætlar að berjast gegn næstu orkupökkum
Í ræðunni í dag sagði Guðmundur Franklín að hann teldi það mikinn misskilning að hlutverk forseta Íslands ætti að einskorðast við að brosa framan í erlenda erindreka og flytja ávarp við hátíðleg tilefni. „Embættið á alls ekki að vera til skrauts heldur á forsetinn að vinna með virkum hætti í þágu þjóðarinnar og leita allra leiða við að þjónusta hana og styðja. Þjóðin er hér algert lykilatriði en hvorki Alþingi né aðrir embættismenn eiga nokkurn tímann að vera teknir fram fyrir hag hennar enda eru þeir einnig í þjónustuhlutverki gagnvart henni. Það þarf að breyta hugsunarhættinum á Íslandi því allt of lengi hefur það viðgengist að spillingin fái að grassera og ráðamenn standi aðgerðalausir hjá.“
Hann sagði að þjóðin hefði ítrekað þurft að kyngja því að stórar upphæðir væru hafðar út úr þjóðarbúinu. „Okkur hefur svo liðið eins og við getum ekkert gert, sama hvað við kjósum þá endi þetta alltaf eins. Þessu skulum við breyta. Við þurfum ekki að sætta okkur við þetta. Það er til fólk sem styður ekki spillingu og mun ekki sætta sig við hana. Það er til fólk sem er tilbúið til að breyta þessu og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kollvarpa þessum illu öflum. Ég er einn af þeim. Ég get ekki horft upp á þetta lengur og ég segi hér með spillingunni stríð á hendur.“
Tveir þegar í framboði
Guðmundur Franklín er þriðji einstaklingurinn sem tilkynnt hefur um forsetaframboð.
Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu sem hann flutti í beinni útsendingu á fyrsta degi ársins að hann ætli að sækjast eftir endurkjöri.
Guðni var kjörinn forseti sumarið 2016 og tók við embættinu í ágúst sama ár. Hann hefur mælst nær fordæmalaust vinsæll forseti á sama tíma og vantraust til stjórnmála hefur mælst mikið.
Axel Pétur Axelsson hefur einnig tilkynnt um framboð. Í samtali við Fréttablaðið fyrr í apríl sagði hann að það „fyrsta sem ég mun gera ef ég verð forseti er að reka alla ríkisstjórnina eins og hún leggur sig.“ Þess ber að geta að á Íslandi er þingræði og forseti hefur því ekki valdi til að reka ríkisstjórn.
Þurfa 1.500 meðmælendur
Alþingi samþykkti í síðustu viku bráðabirgðaákvæði í lögum um framboð og kjör forseta Íslands sem gerir frambjóðendum til embættisins heimilt að safna rafrænum meðmælum, í ljósi þess ástands sem ríkir vegna COVID-19. Hver frambjóðandi þarf að safna að minnsta kosti 1.500 meðmælendum frá kosningabærum mönnum. Ákvæðið fellur úr gildi í byrjun næsta árs.
Takist nýjum frambjóðendum að fá 1.500 meðmælendur þá mun verða kosið til forseta 27. júní næstkomandi. Meðmælendur þurfa að vera samkvæmt ákveðinni skiptingu milli landsfjórðunga, og skila þarf undirskriftum inn til dómsmálaráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis og vottorðum yfirkjörstjórna um að viðkomandi sé kosningarbær. Að hámarki má safna þrjú þúsund meðmælendum.
Áætlað er að forsetakosningar muni kosta ríkissjóð allt að 400 milljónir króna vegna framkvæmdar þeirra.