Reiknuð sama á eldsneyti á eldsneytisstöðvum landsins var 34 prósent lægri í mars 2020 miðað við sama mánuð í fyrra. Salan dróst saman saman eftir að samkomubann var sett á 15. mars og í lok mánaðarins var dagleg sala orðin 42 prósent lægri en á sama degi í fyrra. Það sem af er apríl er staðan enn verri. Meðal sala það sem af er apríl er 68 prósent lægri en meðal dagleg sala í apríl í fyrra.
Heildar salan í mars 2020 mældist 14.345 rúmmetrar sem er 12.6 prósent minna en lægsta mánaðarsala frá janúar 2016 til janúar 2020.
Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag.
Upplýsingarnar byggja á gögnum frá íslenskum færsluhirðum og innihalda alla kredit- og debitkortanotkun, en ná ekki yfir kaup með reiðufé, inneignarkortum eða viðskiptakortum.
Hrun á heimsmarkaði skilar sér ekki til neytenda
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að frá miðjum marsmánuði og fram til miðs aprílmánaðar hefði líklegt innkaupaverð olíufélaga á bensínlítra lækkað um meira en 60 prósent. Sú lækkun, sem er tilkomin vegna hruns á olíuverði á heimsmarkaði, hefur ekki skilað sér til íslenskra neytenda, enda bensínverð nánast það sama nú og það var um miðjan mars. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra um miðjan apríl var hins vegar 78 prósent hærri en hún var í mars.
Innkaupaverð á olíu er nú lægra en það hefur nokkru sinni verið og hlutur íslensku olíufélaga í hverjum seldum lítra hérlendis hefur aldrei verið hærri en hann er nú um stundir. Um miðjan síðasta mánuð kostaði einn lítri af bensíni á Íslandi 209,8 krónur og af honum fóru 18,52 prósent til olíufélaganna. Um miðjan apríl, eftir að heimsmarkaðsverð á olíu hafði hrunið um tugi prósenta á nokkrum vikum, hafði viðmiðunarverð á bensíni hérlendis nánast staðið í stað. Það var 208,9 krónur 15. apríl sem er einungis 0,4 prósent lægra verð en var um miðjan mars. Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra fór hins vegar í 32,96 prósent um miðjan apríl, sem 78 prósent hærra en hann var um miðjan mars.
Verðið hefur lítið lækkað síðan að ofangreind samantekt var birt í síðustu viku.