Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, FDA, varar við því að malaríulyf sem reynd hafa verið í baráttunni gegn COVID-19 geti valdið alvarlegum hjartsláttartruflunum. Þau ætti aðeins að nota fyrir COVID-sjúklinga í klínískum rannsóknum og á sjúkrahúsum þar sem hægt er að fylgjast gaumgæfilega með hjartastarfsemi.
Lyfin heita hydroxychloroquine og chloroquine.
Í aðvörun sem FDA birti í dag segir að stofnunin hafi fengið tilkynningar um alvarlegar hjartsláttartruflanir hjá sjúklingum með COVID-19 sem hafa fengið þessi lyf, sérstaklega ef þau eru gefin samhliða öðrum lyfjum, m.a. sýklalyfinu azithromycin. Í yfirlýsingu stofnunarinnar er ennfremur bent á að margt fólk hafi fengið lyfinu ávísað til heimabrúks í þeirri von að komast hjá sýkingu af völdum nýju kórónuveirunnar.
Í frétt New York Times um málið segir að engar viðurkenndar rannsóknir hafi sýnt fram á gagnsemi af því að gefa COVID-sjúklingum malaríulyfin hydroxychloroquine og chloroquine. Heimilt er að gefa lyfin við malaríu og sjálfsónæmissjúkdómum á borð við rauða úlfa.
Er faraldurinn breiddist út í Kína við upphaf árs voru læknar á kínverskum sjúkrahúsum ráðþrota og reyndu ýmis lyf til að bjarga lífi sjúklinga sinna. Rannsóknir á árangri af notkun malaríulyfjanna tveggja voru gerðar bæði þar og í Frakklandi sem virtust sýna fram á gagnsemi þeirra en þær rannsóknir skorti, að því er fram kemur í grein New York Times, ýmsa þá þætti sem nauðsynlegir eru í viðurkenndum vísindarannsóknum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti mælti með notkun þeirra og sagði þau virðast gagnast, m.a. ef þau væru gefin með sýklalyfinu azithromycin. Það lyf er notað til að vinna á bakteríusýkingum en ekki veirusýkingum.
Mörg sjúkrahús um allan heim hafa notað malaríulyfið hydroxychloroquine í meðferð við COVID-19. Það hefur m.a. verið notað á Landspítalanum.