Staðfest smit af völdum kórónuveirunnar hér á landi eru orðin 1.790 og hefur þeim því aðeins fjölgað um eitt síðasta sólarhringinn. Mjög hefur hægt á nýgreindum smitum síðustu daga. Tekist hefur að rekja uppruna hvers einasta smits sem hefur greinst.
Smitið greindist hjá Íslenskri erfðagreiningu sem tók 608 sýni í gær. 77 sýni voru rannsökuð á veirufræðideild Landspítalans og reyndist ekkert þeirra jákvætt.
Ekkert nýtt smit greindist í gær á Vestfjörðum. Fimm náðu bata og eru nú 49 virk smit í umdæminu, öll á norðanverðum Vestfjörðum. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tók 22 sýni til rannsóknar í gær og hefur tekið alls 607 sýni.
Samkvæmt upplýsingum á vefnum COVID.is hafa 1.570 manns náð bata af sjúkdómnum hér á landi. Virk smit eru 210. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 hér á landi eru tíu dáin.
Fjórtán liggja nú á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins, þar af fjórir á gjörgæslu.
Tæplega 46 þúsund sýni hafa verið tekin frá upphafi faraldursins í lok febrúar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í viðtali við Kjarnann í morgun að enn séu ekki komin til sögunnar nægilega örugg mótefnamælingapróf sem staðfest geta ónæmi fyrir veirunni. Unnið er að því hörðum höndum víða um lönd að finna bestu aðferðina við að mæla mótefni, meðal annars hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Hann segir í viðtalinu að hann telji ekki víst að ónæmispassar verði nokkurn tímann að veruleika eins og hugmyndir hafi verið uppi um.