„Þetta er fallegur dagur sem vonandi er fyrirboði góðra tíma,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við upphaf upplýsingafundar almannavarna í dag. Aðeins eitt nýtt smit greindist á landinu í gær. Sagði Þórólfur faraldurinn „klárlega kominn niður“ og að lítið smit væri í gangi meðal almennings. Þá hefði álag á heilbrigðiskerfið minnkað mjög mikið.
„Ég held að þetta þýði að við munum sjá örfá smit á næstunni en það verður ekki hægt að útiloka hópsýkingar,“ sagði Þórólfur og að þess vegna þurfum við að halda áfram að taka sýni og vera vakandi.
„Nú er einum kafla lokið í stríðinu við COVID hér,“ sagði Þórólfur. „En stríðið er nokkrir kaflar og við erum ekki komin að landi.“
Nýr kafli felst í því að koma í veg fyrir að faraldurinn blossi upp aftur, „og við þurfum að fara varlega næstu mánuði ef ekki á illa að fara“. Áskorunin verði að aflétta takmörkunum hægt, viðhafa viðunandi ferðatakmarkanir næstu misseri, viðhalda sóttvörnum, vernda viðkvæma hópa og kanna mótefnastöðu almennings þegar það verður tímabært.
„Annar þáttur er svo að gera upp þennan faraldur og þá vinnu sem hefur verið innt af hendi af mjög mörgum aðilum,“ sagði Þórólfur. Miklar upplýsingar hefðu fengist síðustu vikur og mikil reynsla og þekking skapast. Það mun gagnast okkur í framtíðinni, m.a. ef önnur bylgja faraldurs kemur upp hér á landi.
En að sögn Þórólfs mun þessi þekking einnig gagnast öðrum þjóðum. Mikilvægt sé að fara í þá vinnu núna að draga þetta saman og deila reynslunni með öðrum.