Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1792 hér á landi. Í gær voru þau 1.790 og hefur þeim því fjölgað um tvö síðasta sólarhringinn. Ekkert smit greindist í fyrradag og aðeins eitt í gær. Sóttvarnalæknir segir að á næstunni sé líklegt að fjöldi smita sveiflist dag frá degi. Hann sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að einn kafli stríðsins væri unninn og faraldurinn klárlega á niðurleið.
Í dag eru 695 í sóttkví en í gær var fjöldinn 731. Alls hafa 18.800 lokið sóttkví.
Í dag eru 174 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 210.
1.608 hafa náð bata.
Alls hafa 46.353 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Í gær voru 199 sýni greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og reyndust tvö þeirra jákvæð. Hjá Íslenskri erfðagreiningu voru tekin 182 sýni og ekkert var jákvætt.
Á sjúkrahúsi liggja þrettán sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af þrír á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin.
Fyrsta smitið af kórónuveirunni greindist á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans þann 28. febrúar. Greindum smitum tók að fjölga smám saman í kjölfarið en fjöldinn tók svo stökk 16. Mars er 46 greindust. Flest smit greindust 23. mars eða 106.