Faraldur kórónuveirunnar ógnar heilbrigði og efnahag alls mannkyns. En þetta verður að öllum líkindum ekki í síðasta sinn sem banvæn veirusýking mun herja á okkur – ekki nema að tekið verði á rót vandans: Hömlulausri eyðileggingu náttúrunnar.
Þetta er mat sérfræðinga í líffræðilegum fjölbreytileika sem allir eru í hópi þeirra fremstu á því sviði. „Það er ein dýrategund sem ber ábyrgð á faraldri COVID-19 – við,“ segja þeir. Heimsfaraldrar síðustu ára og áratuga eru að þeirra sögn bein afleiðing mannanna verka, aðallega þeirra fjármála- og efnahagskerfa sem byggð hafa verið upp. Kerfa sem byggja á hagvexti, sama hvað hann kostar. Núna er tækifærið til að „hætta að sá fræjum fyrir faraldra framtíðarinnar,“ segja vísindamennirnir.
Í ítarlegri samantekt Guardian um kenningar og rannsóknarniðurstöður prófessoranna Josef Settele, Sandra Díaz og Eduardo Brondizio, er m.a. fjallað um niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar þeirra á lýðheilsu. Niðurstaðan var sú að samfélögum manna væri stefnt í hættu með hraðri eyðileggingu vistkerfa jarðar.
Annar þáttur rannsóknarinnar er í þann mund að hefjast og verður hann leiddur af fjórða sérfræðingnum, Peter Daszak. Vísindamennirnir fjórir birtu sameiginlega grein í dag þar sem segir: „Hömlulaus skógareyðing, stjórnlaus vöxtur stórtæks landbúnaðar, námuvinnslu og innviðauppbyggingar ásamt hagnýtingu villtra dýra, hefur skapað kjöraðstæður fyrir fjölda sjúkdóma.“
Benda þeir á að um 70 prósent sjúkdóma sem leggjast á menn eigi uppruna sinn í dýrum. Og sífellt fleira fólk er í mikilli nálægð við dýr vegna fyrrgreindra ástæðna. Veldisvöxtur í þéttbýlismyndun og flugferðalögum varð svo til þess að „meinlaus veira í asískum leðurblökum kallaði fordæmalausar þjáningar yfir fólk, stöðvun hagkerfa og samfélaga um allan heim“. Þetta er þáttur mannshandarinnar í faraldri og COVID-19 gæti verið „aðeins byrjunin“.
Vísindamennirnir telja að faraldrar eigi eftir að verða tíðari í framtíðinni, breiðast hraðar út og hafa meiri efnahagslegar afleiðingar. Þeir gætu banað fleirum ef ekki verður farið gríðarlega varlega í ákvarðanatökum. „Heilsa fólks er nátengd heilsu dýralífs, heilsu búfénaðar og heilsu umhverfisins. Þetta er í raun eitt og hið sama.“
Inger Andersen, yfirmaður umhverfismála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í mars að náttúran væri „að senda okkur skilaboð“ með faraldri kórónuveirunnar. Hún sagði að ef okkur auðnast ekki að hugsa betur um jörðina tækist okkur ekki að hugsa betur um heilsu fólks.
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í síðustu viku að stjórnvöld yrðu að nota tækifærið og „byggja upp betri heim“ eftir að faraldrinum lýkur. Veröld sem byggir á sjálfbærni og sterkum samfélögum.
Maðurinn sem fann upp hugtakið „líffræðilegur fjölbreytileiki“ árið 1980, Thomas Lovejoy, sagði um helgina: „Faraldurinn er ekki hefnd náttúrunnar. Við gerðum þetta ein og hjálparlaust.“
Í grein sérfræðinganna fjögurra segir: „Við getum komið út úr þessu ástandi sterkari en nokkru sinni fyrr með því að velja aðgerðir sem vernda náttúruna svo að náttúran geti hjálpað til við að vernda okkur.“