„Við fyrstu sýn kann að virðast einkennilegt að búast við því að heimshagkerfið muni taka varanlegum breytingum vegna þess tímabundna neyðarástands sem nú ríkir um allan heim. Ekki er búist við meiriháttar tækniþróun eða gjörbreytingu á menntunarstigi á næstu mánuðum, við munum flest örugglega búa við svipaða tækni og þekkingu og við gerðum í byrjun þessa árs.
Hins vegar er mögulegt að þær breytingar sem hafa orðið á daglegu lífi á undanförnum vikum hafi varanlega breytt hegðun og smekk manna, og getur það haft margvísleg áhrif á hagkerfið.“
Þetta skrifar Jónas Atli Gunnarsson, ritstjóri Vísbendingar, í nýjustu útgáfu ritsins.
Hann segir að ein möguleg breyting sé breytt viðhorf gagnvart fjarvinnuforritum líkt og Zoom, Skype og Google hangouts, en notkun á slíkum búnaði hefur stóraukist á síðustu vikum um allan heim og gert fólki kleift að vinna úr heimahúsum. Ef þessi þróun sé ekki einungis tímabundin og hagkerfið fer í gegnum svokallaða Zoom-væðingu gæti það orðið skilvirkara, grænna og jafnara fyrir vikið.
Ekki er enn víst hvort fólk muni vinna meira að heiman eftir að faraldrinum lýkur, en út frá kenningum um vegartryggð og yfirlýsingum frá stórfyrirtækjum má leiða líkum að því að sú verði raunin. Skilvirknin gæti þannig aukist, bæði vegna styttri vinnutengdra ferðalaga og vegna minni umferðar. Fækkun ferðalaga vegna vinnu gæti líka dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem hún er líkleg til að auka eftirspurn eftir búsetu utan stórborga og þannig dregið úr þeim tekjuójöfnuði sem ríkir milli þéttbýlis- og dreifbýlissvæða. Þótt ferðaþjónustan gæti liðið fyrir minni vinnutengd ferðalög í ýmsum löndum er ekki líklegt að slíkt gerist hér á landi, þar sem fáir ferðamenn koma hingað vegna vinnu.“
Þetta er brot úr umfjöllun Jónasar Atla um mögulega Zoom-væðingu hagkerfisins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu og lesa greinina í heild sinni og fá vikulega sent hágæðaumfjallanir um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun með því að smella á hlekkinn hér að neðan.