Enginn er lengur á gjörgæslu vegna COVID-19 smits, sagði Alma Möller landlæknir á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag. Alma sagði þetta ánægjuleg tíðindi, en seinasti sjúklingurinn sem enn var inniliggjandi útskrifaðist af gjörgæsludeildinni á Landspítala í morgun.
Í gær hafði verið greint frá því að enginn væri lengur í öndunarvél vegna COVID-19 sjúkdómsins hér á landi. Alma sagði aðspurð á fundinum að faraldurinn væri að ganga hraðar niður en heilbrigðisyfirvöld höfðu búist við.
Hún bætti þó við að enn væri fólk veikt hér á landi og svo gæti farið að einhverjir af þeim tæplega 150 sem eru nú með virk smit gætu þurft að leggjast inn. Þó væri fagnaðarefni að enginn sé lengur á gjörgæsludeild.
Átján sjúklingar hafa þurft að leggjast í öndunarvél hér á landi frá því að faraldurinn hófst.
Mótefnamælingar eru sem áður í undirbúningi og verða þær framkvæmdar í samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar, heilsugæslunnar og sjúkrahúsa, sagði Alma einnig. „Þá fæst endanleg mynd af því hve stór hluti þjóðarinnar hefur smitast,“ sagði landlæknir.
Alma sagði að unnið væri að því af kappi að endurskoða leiðbeiningar til fólks sem telst vera í sérstökum áhættuhópi vegna kórónuveirunnar. Uppfærðar leiðbeiningar til þessa hóps verða gefnar út um það leyti sem slakað verður á samkomubanni, 4. maí.