„Nú er kominn launaseðill fyrir næsta mánuð. Hækkunin er komin og afturvirk. Það þýðir útborguð laun með leiðréttingunni eftir skatta upp á 915 þúsund krónur (1.518.069 kr fyrir skatt með leiðréttingunni).“
Þetta skrifar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Nú er kominn launaseðill fyrir næsta mánuð. Hækkunin er komin og afturvirk. Það þýðir útborguð laun með leiðréttingunni...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Thursday, April 30, 2020
Kjarninn greindi frá því 8. apríl að laun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og annarra æðstu embættismanna hefðu hækkað um 6,3 prósent frá 1. janúar síðastliðinn. Fyrir mistök var launahækkunin hins vegar ekki greidd út síðustu mánuði og því fá þingmenn og ráðherrar hana greidda nú um mánaðamótin afturvirka frá áramótum.
Skömmu áður hafði verið greint frá því að Alþingi hefði samþykkt að lögákveðin hækkun sem var áætluð 1. júlí 2020 yrði frestað til 1. janúar 2021. Þetta var gert vegna yfirstandandi aðstæðna sem rekja má til útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og þeirra miklu efnahagslegu afleiðinga sem hún hefur í för með sér.
Hún verður í samræmi við hækkun á launavísitölu Hagstofunnar vegna ársins 2019. Sú frestun hafði þó, samkvæmt svari ráðuneytisins til Kjarnans, engin áhrif á gildistöku launahækkunarinnar sem frestað var í fyrra.
Píratar, Samfylkingin, Flokkur fólksins og óháði þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson lögðu nýverið fram frumvarp sem í fólst að fella niður launahækkun þingmanna og ráðherra sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn og frysta laun þeirra út tímabilið. Fyrsta umræða um málið fór fram í fyrradag.
Yfir 50 þúsund manns, rúmlega fjórðungur íslensks atvinnumarkaðar, eru sem stendur atvinnulausir að hluta eða öllu leyti. Í þessari viku hafa á fimmta þúsund manns hið minnsta misst vinnuna í hópuppsögnum, að langmestu leyti fólk sem starfaði hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.