Stefnt er að því að leyfi verði gefið til þess að opna sundlaugar 18. maí næstkomandi, með ákveðnum takmörkunum, samkvæmt orðum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur sagði að hann og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefðu orðið ásátt um að stefna að þessari dagsetningu, en bætti við að ekki væri búið að formfesta nákvæmlega hvernig útfærslan yrði og hvaða takmarkanir yrðu á sundferðum til að byrja með.
Opnun sundlauga verður þó háð því, að sögn Þórólfs, að faraldurinn verði áfram í þeirri lægð sem hann er kominn í. Hann sagði að svo lítið samfélagslegt smit virtist vera í gangi þessa dagana að óhætt þætti að leyfa þjóðinni að gera það sem hún þráði einna mest, að komast í sund.
Þórólfur lagði áherslu á það, í máli sínu á upplýsingafundinum í dag, að verkefninu væri ekki lokið þó að með rýmkun samkomubannsins í dag væri einum kafla að ljúka í glímunni við veiruna.
Hann brýndi fyrir fólki að halda áfram að gera sóttvarnaráðstafanir og minnti sérstaklega á að tveggja metra reglan er ennþá í gildi hjá fullorðnum og hana ætti að reyna að halda að eins miklu marki og mögulegt er.