Fleira en hlýindi skýra rýrnun jöklanna á Íslandi síðasta sumar. „Vissulega er það svo að hlýindaskeiðið allt frá aldamótum tekur sinn toll af jökulísnum og skiptir tíðin eitt ár til eða frá litlu,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.is. Rýrnun jökla á síðasta ári var ein sú mesta sem mælst hefur. Í fréttabréfi verkefnisins Hörfandi jökla, sem birt var í gær, er rýrnunin m.a. rakin til þess að sumarið 2019 var víðast hlýtt og sólríkt.
Í færslu sem Einar skrifar á Facebook í morgun bendir hann á að síðasta sumar hafi vissulega verið með þeim hlýrri en langt í frá það hlýjasta síðasta áratuginn eða svo. Hann segir að óheppileg eldgos með tilliti til jökulbráðar, Eyjafjallajökulsgosið og Grímsvatnagosið árið eftir hafi skilað þunnu lagi gjósku yfir flest íshvelin á hálendinu „Til dæmis var Tindfjallajökull mógulur á eftir og er að nokkru leiti enn,“ skrifar Einar. „Dregur það úr endurkasti sólar og eykur á sumarbráðnun.“
Einar bendir einnig á að síðasta vor hafi að mörgu leyti verið óvenjulegt. Aprílmánuður var með afbrigðum hlýr og tók upp vetrarsnjó af hálendinu mun fyrr en í meðalári. Í kjölfarið þornaði í maí sem var heldur svalari og sólríkur.
„En það sem meira máli skipti var að þurr vindur af austri og suðaustri var algengur í bland við norðanátt,“ skrifar Einar. „Í byggðum suðvestan- og sunnanlands sáust rykmekkir af þurrum sandsvæðum aftur og aftur og svo kvað að þessum fína leir í loftinu að suma dagana dró stórlega úr skyggni. Barst ófögnuðurinn inn í híbýli fólks. Upptakasvæðin voru nokkur og breytileg, en mjög kom af fínefni úr Eldhrauni enda hafði verið með stærstu Skaftárhlaupum sumarið áður.“
Einar segir að svifryksmælingar í Kópavogi styðji þetta en þar urðu nokkuð margir toppar af grófara ryki, einkum um miðjan maí. „Í öllum tilvikum sandur og leir langt að kominn.“
Í lok júní í fyrra mátti sjá á tunglmyndum hvernig „grágul slikja hafði lagst yfir jökulhvelin sum, sem annars sýnast mjallahvít fyrir meginleysinguna á hájöklunum, sem oftast hefst í byrjun júlí og stendur fram í september,“ skrifar Einar.
Óhreinindin í yfirborði jöklanna drekka í sig geisla sólar og auka mjög á bráðnun, að mestu óháð hitanum, segir Einar. „Það sem meira er að á meðan bræðsluvatnið sígur niður haldast fínefnin í yfirborðinu, eða allt þar til fyrsti snjór að hausti þekur jökulinn að nýju. Þau koma síðan aftur í ljós í mismiklum mæli þó í leysingum næstu ára.“
Í fréttabréfi verkefnisins Hörfandi jöklar kemur fram að flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um 800 ferkílómetra síðan árið 2000. Frá lokum 19. aldar, þegar jöklar á Íslandi náðu mestu útbreiðslu síðan land byggðist, hafa þeir rýrnað um tæplega 2.200 ferkílómetra, sem er rúmlega tvöföld stærð Reykjanesskagans. Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður hlýnandi loftslags hérlendis.