Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir það vera vonbrigði að frumvörpum sem snúast um umhverfismál hafi verið frestað fram á haustþing og spyr hvar grænu efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar séu. Umhverfismálum megi ekki vera ýtt til hliðar út af COVID-19 eða öðru, heldur þvert á móti, eigi þau að vera í forgrunni „akkúrat núna á svona tímum“. Þetta sagði hún í dagskrárliðnum störf þingsins í dag.
„Það blasa við okkur risavaxnar áskoranir í efnahagslífinu og í hagkerfinu. Tugþúsundir manna eru á atvinnuleysisskrá og spáð er rúmlega 7 prósent samdrætti hagvaxtar hér á landi á þessu ári. Grunnatvinnugrein Íslendinga síðastliðin ár, ferðaþjónustan, er nánast eins og sviðin jörð. En nú er lag að byggja upp ferðaþjónustu á ný sem grundvallast á náttúrunni, umhverfisvernd og sjálfbærni.
Í öllum efnahagsaðgerðabjörgunarpökkum ríkisstjórnarinnar er afar mikilvægt að ríkisvaldið stígi inn í uppbygginguna eins og hefur verið gert en aðgerðir verði skilvirkar og opinber stuðningur skilyrtur við siðferðilega viðskiptahætti og sjálfbæran rekstur, félagslega jafnt sem umhverfislega,“ sagði hún.
Stuðningur ríkisins verður að vera markvissari
Rósa Björk telur það skipta miklu máli að Íslendingar detti ekki af leið framsýnna umhverfisvænna lausna við þá uppbyggingu sem er í vændum. „Þannig að við höldum fast í skuldbindingar okkar við Parísarsamkomulagið en frestum þeim ekki, finnum efnahagslegan farveg, hvata og lausnir fyrir sjálfbæra og græna atvinnuuppbyggingu.“
Þá sagði hún að stuðningur ríkisins yrði að vera markvissari og meira um grænar fjárfestingar, græna og sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustunnar, umhverfisvænar lausnir í matvælaframleiðslu, tækninýjungum og grænt hugvit í orkugeiranum og græna nýsköpun. Áframhaldandi aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum yrðu að vera stærri hluti af efnahagsuppbyggingunni „eins og við sjáum í löndunum í kringum okkur þar sem áhersla á grænar lausnir við endurreisn efnahagslífsins er mjög skýr og sterk“.
Ýmsir kalla eftir því að einblínt verði á grænar fjárfestingar
Rósa Björk benti enn fremur á að fjölmennur evrópskur hópur þingmanna og ráðherra, forstjórar stórra evrópskra fyrirtækja og leiðtogar verkalýðshreyfinga í Evrópu hefðu kallað opinberlega eftir því að einblínt væri á grænar fjárfestingar og líffræðilega fjölbreytni til að hefja aftur efnahagslegan vöxt í álfunni. „En ég verð að játa að ég sakna skýrari stefnu ríkisstjórnarinnar um græna efnahagsuppbyggingu sem byggir á sjálfbærri og umhverfisvænni endurreisn og viðsnúning.“
Þingmaðurinn hvatti að lokum Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra til dáða í þessum efnum og hét honum stuðningi við þessa vinnu. „Leggjum línurnar um hvernig samfélag við viljum byggja upp hér. Það samfélag verður að vera byggt upp með mannúðlegum og grænum lausnum til framtíðar.“