Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á daglegum blaðamannafundi í dag að hugsanlega væri hægt að aflétta takmörkunum hraðar ef vel gengi að hemja faraldurinn – og að sama skapi þyrfti að fara hægar í sakirnar ef illa gengi.
„Ég tel nokkuð ljóst að okkur hafi gengið vel að hemja þennan faraldur til þessa vegna góðrar samvinnu við almenning og vegna þess að almenningur hefur farið eftir því sem hann er beðinn um,“ sagði hann.
Því væri ástæða til þess að fara hraðar í afléttingar heldur en boðað hefði verið og að höfðu samráði við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þá væri stefnt að því að næsta skref í afléttingu yrði þremur vikum eftir fyrsta skrefið, eða þann 25. maí næstkomandi.
„Í því skrefi yrði leyfð opnun á ýmiss konar starfsemi, til dæmis starfsemi líkamsræktarstöðva, með ákveðnum skilyrðum og meiri fjöldi leyfður í sama rými en nú er leyfður. Þó að leyfður fjöldi hafi ekki verið ákveðinn ennþá þá höfum við talað um að minnsta kosti 100 einstaklinga en það verður ákveðið síðar,“ sagði Þórólfur.
Fram kom á blaðamannafundi almannavarna þann 4. maí síðastliðinn að stefnt væri að því að leyfa opnun sundlauga þann 18. maí, með ákveðnum takmörkunum.
Opnun sundlauga yrði þó háð því, að sögn Þórólfs, að faraldurinn yrði áfram í þeirri lægð sem hann er kominn í. Hann sagði að svo lítið samfélagslegt smit virtist vera í gangi þessa dagana að óhætt þætti að leyfa þjóðinni að gera það sem hún þráði einna mest, að komast í sund.