Á stjórnarfundi Landsvirkjunar í lok apríl var samþykkt ný arðgreiðslustefna, sem hefur það að markmiði að hámarka arðstekjur ríkissjóðs af þeim fjármunum sem bundnir eru í Landsvirkjun og afrakstur ríkisins af orkuauðlindunum, en einnig gæta þess að fyrirtækið standi áfram á traustum fjárhagslegum stoðum og geti viðhaldið svipaðri lánshæfiseinkunn og sambærileg fyrirtæki í öðrum löndum.
Tíu milljarðar króna verða greiddir í arð til ríkisins í ár á grundvelli þessarar nýju stefnu. Það er rúmlega tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári, þegar arðgreiðslan nam 4,25 milljörðum króna. Árin þar á undan nam arðgreiðslan 1,5 milljörðum króna árlega.
Í nýju arðgreiðslustefnunni felst að greiðslan verður jöfn handbæru fé frá rekstri að frádregnu hlutfalli af fjárfestingum, margfaldað með útgreiðsluhlutfalli og verða hlutföllin háð skuldsetningu félagsins á hverjum tíma, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í dag.
Þar segir einnig að gert sé ráð fyrir að stjórn félagsins rökstyðji fyrir eiganda frávik frá reiknireglunni ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til þess að arðgreiðslan verði hærri eða lægri. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins þykir mikilvægt fyrir bæði stjórnvöld og fyrirtækið að arðgreiðslustefnan byggi á „skýrum og gegnsæjum viðmiðum, verði einföld í framkvæmd og feli í sér sem mestan fyrirsjáanleika um greiðslur.“
Forsendur hafa á undanförnum árum skapast fyrir auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun til ríkissjóðs, vegna sterkari eiginfjárstöðu, hóflegri skuldastöðu og lítilli fjárfestingaþörf framundan.
Búið var að greina frá því fyrir nokkru síðan að fyrirtækið stefndi að því í nánustu framtíð að greiða tíu til 20 milljarða króna á ári í arð til eiganda síns og er arðgreiðsla þessa árs sú fyrsta af þeirri stærðargráðu.
Til stóð að þessar arðgreiðslur myndu verða grunnur fyrir svokallaðan Þjóðarsjóð sem í átti að vera um 500 milljarðar króna eftir tæpa tvo áratugi. Frumvarp um Þjóðarsjóð er þó enn ósamþykkt.