Landspítalinn á nú 55 fullkomnar gjörgæsluöndunarvélar. Þegar mest lét voru þrettán COVID-sjúklingar inniliggjandi á gjörgæslu í einu og þar af voru níu í öndunarvél. Þetta kemur fram í svari spítalans við fyrirspurn Kjarnans.
Þá segir að samtals hafi fimmtán COVID-sjúklingar þurft að leggjast í öndunarvél. „Við eigum eftir að taka samtalið um hvað við gerum við þær öndunarvélar sem við teljum okkur ekki þurfa.“
Samkvæmt Landspítalanum er enn óákveðið hver æskilegur fjöldi þessara véla sé með hliðsjón af hugsanlegri heilbrigðisvá í framtíðinni, annarri en COVID-19. Spítalinn reiknar með að vilja koma sér upp einhverjum lágmarksvaralager.
Ákvarðanir um þetta liggja fyrir á næstu vikum, segir í svarinu.
Kjarninn greindi frá því þann 9. apríl síðastliðinn að Landspítalinn hefði fengið 17 öndunarvélar frá 14 íslenskum fyrirtækjum. Fyrirtækin vildu ekki láta nafns síns getið en með gjöfinni vildu þau leggja sitt að mörkum við að styðja við íslenskt heilbrigðiskerfi á erfiðum tímum.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans sagði á sínum tíma að þrotlaus vinna, útsjónarsemi og harðfylgi lægi að baki því að koma þessum búnaði til landsins enda væru öll ríki heims í kapphlaupi um þessar vörur um þessar mundir. Öll sú vinna hefði verið unnin í samvinnu við Landspítalann og gerð til að mæta þörfum hans. „Gjöfin er einkar vel tímasett og snýst um búnað sem munar mikið um,“ sagði hann.
Áður höfðu velunnarar Landspítalans fært honum 15 hátækniöndunarvélar að gjöf en gjöfin barst frá Bandaríkjunum, að því er fram kom í frétt RÚV um málið. Vélarnar kostuðu um þrjár milljónir stykkið og var verðmæti þeirra samanlagt því á fimmta tug milljóna. Fyrir voru til 26 öndunarvélar á spítalanum.
Gefandinn kaus nafnleynd, en samkvæmt heimildum RÚV var um að ræða hóp fólks með tengsl við Ísland.
Samkvæmt svörum frá Landspítalanum falla þrjár vélar ekki undir skilgreininguna „fullkomnar öndunarvélar“ og því séu þær ekki taldar með í heildartölunni.