Fyrsti ársfjórðungur á íslenskum vinnumarkaði var um margt óvenjulegur, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. „Segja má að það sem hafi einkennt hann öðru fremur hafi verið takmarkanir á vinnu fólks, bæði vegna verkfallsaðgerða og síðan samkomubanns um miðjan marsmánuð. Þessara áhrifa gætir að einhverju leyti í mælingum á vinnuaflinu.“
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 vann að jafnaði 39 prósent launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af var launafólk sem vann aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima 5,1 prósent en 33,3 prósent launafólks vann stundum í fjarvinnu, samkvæmt Hagstofunni.
Þetta er nokkur aukning frá fyrra ári þegar 31,7 prósent launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinnti í fjarvinnu heima. 4,3 prósent gerðu það venjulega og 27,4 prósent stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við. Hagstofan dregur þá ályktun að trúlegt sé að áhrifa COVID-19 gæti nokkuð í þessari aukningu.
Fleiri stundir hjá þeim sem vinna heima í fjarvinnu
Þegar vinnustundir á fyrsta ársfjórðungi eru skoðaðar sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 39,5 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem voru eitthvað í fjarvinnu heima unnu 41,4 klukkustundir og þeir sem aldrei eru í fjarvinnu heima unnu 38,1 klukkustund. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 40,9 klukkustundir á fyrsta ársfjórðungi 2019 en þeir sem unnu í fjarvinnu heima 42,9 klukkustundir og þeir sem sögðust aldrei vinna fjarvinnu heima 39,7 klukkustundir.
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 unnu launamenn, sem eitthvað vinna fjarvinnu heima, að jafnaði 9,8 klukkustundir eða 23,8 prósent af unnum stundum. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 vann launafólk, sem eitthvað vinnur í fjarvinnu heima, 6,7 stundir að jafnaði eða 15,9 prósent af unnum stundum.
„Fólk og fyrirtæki geta hugsað á skapandi hátt“
Miklar breytingar hafa orðið á högum mannsins um heim allan eftir að COVID-19 faraldurinn braust út. Samkomubann hefur orðið til þess að fólk hefur þurft að finna leiðir til að sinna vinnu að heiman og má sjá að dregið hefur út losun gróðurhúsalofttegunda í kjölfarið.
Guðmundur Ingi Guðbandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í samtali við Kjarnann í byrjun maí að ef fyrirtæki eða stofnanir væru í þeirri stöðu að starfsmenn þeirra þyrfti ekki að mæta alla daga á vinnustaðinn þá skyldi nýta það tækifæri.
„Eitt af því sem við þurfum að gera er að draga úr umferð. Það er alveg ljóst. Ég held að við getum lært eftir þennan tíma að fólk getur unnið heima einn dag í viku, jafnvel tvo daga í viku, á sumum vinnustöðum. Fólk og fyrirtæki geta hugsað á skapandi hátt hvernig hægt sé að skipuleggja starfið til þess að þetta sé mögulegt. Og þannig myndi draga varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum,“ sagði hann.