Í skýrslu stýrihóps um afnám ferðatakmarkana kemur fram að það hafi verið Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem kynnti þá hugmynd að skima alla sem koma til landsins, bæði Íslendinga og útlendinga. Þessa hugmynd gerði stýrihópurinn að einni af sínum tillögum sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun.
Á blaðamannafundi í dag greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frá því að stefnt væri að því að eigi síðar en 15. Júní ættu þeir sem koma til Íslands kost á því að fara í skimun eða framvísa vottorði sem íslensk heilbrigðisyfirvöld taka gild. Hægt verður að fá niðurstöður úr sýnatöku samdægurs og ef hún reynist neikvæð þarf viðkomandi ekki að fara í tveggja vikna sóttkví eins og núverandi reglur gera ráð fyrir.
Í stýrihópnum áttu sæti ráðuneytisstjórar sex ráðuneyta. Hópurinn kallaði ýmsa sérfræðinga á sinn fund, m.a. Kára Stefánsson. Í skýrslu hópsins kemur fram að Kári hafi sagt það sitt mat að reynslan undanfarnar vikur sýndi að framkvæmanlegt væri að skima alla sem kæmu til landsins. Íslensk erfðagreining hafi náð að prófa
allt að tvö þúsund manns á dag og hægt ætti að vera að margfalda þá afkastagetu. Kári teldi einnig að hið opinbera ætti að annast þetta verkefni og byggja á reynslu sem fengist hefur hér á landi við að ná tökum á COVID-19. Íslensk erfðagreining væri hins vegar reiðubúin að aðstoða við að koma þessu á laggirnar. Einnig gæti hún haft hlutverki að gegna við flóknari greiningar.Heilbrigðisráðuneytið hefur í kjölfar þessa fundar rætt nánar við forsvarsmenn í heilbrigðiskerfinu um framkvæmdahlið mála og hefur verið gengið út frá því að veirufræðideild LSH myndi annast skimun á Keflavíkurflugvelli en sýnum yrði ekið til Reykjavíkur. Ferðamenn myndu fá niðurstöðu samdægurs og þyrftu ekki að bíða eftir henni á flugvellinum enda væru þeir með smitrakningarforrit og önnur nauðsynleg forrit í síma.
Verið er að leggja mat á kostnað við verkefnið og einnig hefur verið til skoðunar hvort taka eigi gjald af farþegum fyrir sýnatöku á flugvellinum.