Ef áform fjögurra fyrirtækja um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi ná fram að ganga mun heildarframleiðsla á eldisfiski þar verða um 25.700 tonn á ári. Samlegðaráhrif eru talin verða nokkuð neikvæð fyrir ástand sjávar, botndýralíf og haf- og strandnýtingu.
Með auknu eldi er einnig hætta á að sjúkdómar og laxalús nái að breiðast út til nærliggjandi eldissvæða. Áhrif á náttúrulega laxastofna gætu orðið talsvert neikvæð og einnig er líklegt að hætta aukist á að eldislaxar nái að hrygna í vestfirskum ám og hafi möguleika á að blanda erfðaefni við villtan lax. Ef blendingar ná fótfestu í viðkomandi laxastofni verði áhrifin varanleg og óafturkræf. Þá getur eldið haft takmarkandi áhrif á siglingaleiðir og nokkuð neikvæð áhrif á fiskveiðar. Samlegðaráhrif verða hins vegar verulega jákvæð fyrir samfélag svæðisins.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í frummatsskýrslu Arnarlax ehf. um mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi með framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári. Í skýrslunni er fyrst og fremst fjallað um möguleg umhverfisáhrif þessa tiltekna verkefnis, hvort sem eldislaxinn verður frjór eða ófrjór, en einnig samanlögð áhrif allra þeirra fiskeldisverkefna sem áformuð eru.
Arnarlax stefnir að því að hefja rekstur eldisins í Djúpinu vorið 2021.
Fyrirtækið Arnarlax ehf. var stofnað árið 2010. Stærsti hluthafi fyrirtækisins er norska fiskeldisfyrirtækið Salmar AS. Arnarlax starfrækir sjókvíaeldi á Vestfjörðum og er með aðstöðu á Bíldudal. Fyrirtækið hefur starfs- og rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Arnarfirði. Árið 2016 keypti Arnarlax eldisfyrirtækið Fjarðalax sem hefur starfs- og rekstrarleyfi í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Árið 2012 keypti Arnarlax fiskeldisstöðina Bæjarvík á Tálknafirði. Með kaupum á Fjarðalaxi eignaðist Arnarlax einnig 50 prósent hlut í seiðaeldisfyrirtækinu Ísþór í Þorlákshöfn. Hjá Arnarlaxi, Fjarðalaxi og Bæjarvík starfa nú um 110 manns.
Ísafjarðardjúp, oft kallað Djúpið, er dýpsti fjörður á Íslandi. Fjörðurinn er eitt megineinkenna Vestfjarða og umhverfis hann rísa sæbrött og tignarleg fjöllin. Suður úr Ísafjarðardjúpi ganga níu firðir og úr mynni hans til norðausturs eru Jökulfirðir. Þrjár stórar eyjar eru á Ísafjarðardjúpi; Vigur, Æðey og Borgarey.
Mörk fjögurra sveitarfélaga liggja að Ísafjarðardjúpi: Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð.
Í frummatsskýrslunni, sem Verkís vann fyrir Arnarlax, kemur fram að áætlað sé að eldiskvíar verði á þremur stöðum í Djúpinu; við Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð. Við val á staðsetningu var horft til margra þátta eins og veðráttu, ölduhæðar, siglingaleiða og veiðisvæða. Við staðarval var gert ráð fyrir að eldissvæðin yrðu utan netlaga en komið fyrir þar sem botn er í hallandi hlíð, þannig að lífrænn úrgangur frá eldinu dreifist betur. Gert er ráð fyrir að fjöldi eldiskvía á hverju eldissvæði verði á bilinu 5-15 talsins.
Vindasamt er í Ísafjarðardjúpi á veturna. Frá því í maí 2017 til október 2019 fór vindur yfir 26 m/s í 129 klukkustundir, þar af var ofsaveður eða fárviðri í 37 klukkustundir á tímabilinu, segir í skýrslunni um veðurfar á fyrirhuguðu athafnasvæði.
Í skýrslunni segir að seiði verði bólusett í eldisstöð fyrir sjósetningu og eingöngu verði „notast við sjúkdómafrí seiði sem vottuð verða af dýralækni“.
1,8 milljónir seiða fyrsta árið
Í endurskoðuðu áhættumati vegna erfðablöndunar, útgefnu af Hafrannsóknarstofnun, er lagt til að leyfilegur hámarkslífmassi frjós lax í Ísafjarðardjúpi verði 12.000 tonn og 14.000 tonn ef notast verður við stærri seiði en 400 grömm við útsetningu.
Seiði sem sett yrðu í sjókvíar í Ísafjarðardjúpi yrðu alin til að byrja með í fiskeldisstöðinni í Bæjarvík á Tálknafirði. Arnarlax áætlar að setja út á fyrsta ári um 1,8 milljónir 90-300 gramma eldisseiða og að eldisfiskur nái sláturstærð á 15 til 24 mánuðum. Eldið verður kynslóðaskipt og eldissvæði hvíld milli kynslóða. Samkvæmt framleiðsluáætlun er gert ráð fyrir að árleg framleiðsla verði komin í um 10.000 tonn á þriðja ári eldisins.
Talið er að svæðið geti borið allt að 30.000 tonna framleiðslu í fiskeldi, án þess að hafa umtalsverð áhrif á súrefnisinnihald sjávar, segir í skýrslunni. Þá kemur fram að allt eldi Arnarlax muni líklega hafa óveruleg áhrif á ástand sjávar í Ísafjarðardjúpi. Komi fram neikvæð áhrif verði þau afturkræf og tímabundin. Gera megi ráð fyrir að áhrif laxeldisins á botndýralíf verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði nærri eldisstað.
Gjöful fiskimið eru í Ísafjarðardjúpi og er þar löng hefð fyrir veiðum. Djúpið er uppeldissvæði margra fisktegunda en í skýrslunni kemur fram að ekki sé vitað til þess að hrygning þeirra eigi sér þar stað. Arnarlax telur að laxeldið muni ekki hafa bein áhrif á rækjustofn og þorskungviði. Ýsa er hins vegar nokkuð útbreidd utan við Æðey og gæti eldið haft áhrif á ætisslóð hennar.
Arnarlax gerir ráð fyrir því að áhrif á villta laxfiska megi helst vænta frá eldissvæðinu við Óshlíð, fjarri Inndjúpinu, ef fisksjúkdómar eða laxalús komi upp í eldinu. „Með tilliti til umfangs Ísafjarðardjúps verði áhrifin minni háttar og afturkræf ef til þeirra kemur,“ stendur í skýrslunni. Þá eru áhrif á villta laxfiska í Ísafjarðardjúpi vegna fisksjúkdóma og laxalúsar metin óveruleg.
Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, í tilfelli frjós lax, er talið ósennilegt að framkvæmdin skaði villta laxastofna með erfðablöndun. Með hliðsjón af ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og mótvægisaðgerðum eru áhrif 10.000 tonna eldis á frjóum laxi metin óveruleg til nokkuð neikvæð á erfðaefni villtra laxfiska og talin afturkræf.
Eldi á ófrjóum laxi er að mati Arnarlax ekki líklegt til að hafa áhrif á erfðir villtra laxastofna í Ísafjarðardjúpi. „Ekki er þó hægt að fullyrða að aðferð til að bæla genatjáningu gefi 100 prósent ófrjóan lax. Því verða áhrif 10.000 tonna laxeldis líklega í mesta lagi óveruleg á erfðir villtra laxastofna í Ísafjarðardjúpi,“ segir í frummatsskýrslunni.
Nokkuð neikvæð áhrif á fiskveiðar
Áhrif á framkvæmda- og rekstrartíma á fiskveiðar eru hins vegar talin nokkuð neikvæð þar sem eldiskvíar og tengdur búnaður takmarkar svæði sem nýta má til sjósóknar. Áhrif á siglingar eru einnig talin nokkuð neikvæð. Eldissvæðin við Drangshlíð og Eyjahlíð eru utan helstu siglingaleiða. Eldissvæðið við Óshlíð er á fjölförnu siglingasvæði og getur því haft truflandi áhrif ef ekki er gripið til viðeigandi ráðstafana, svo sem merkinga í samræmi við þær reglur sem gilda. Siglingaleiðir tengjast einkum fiskveiðum, þjónustu við fiskeldi, ferðaþjónustu, útivist og frístundum.
Á fyrsta ári eldisins yrði fóðurmagn um 1.950 tonn og á árinu 2023 væri árlegt fóðurmagn í eldi komið i um 11.200 tonn á ári. Gert er ráð fyrir að allt að 200 tonn af laxi verði flutt frá sjókvíum til hafnar og að sláturhúsi félagsins í hverri viku.
Hundruð tonna af lífrænum úrgangi
Losun á lífrænum úrgangi til umhverfisins ræðst af framleiðslumagni og fóðurnotkun, segir í skýrslunni. Við mat á losun næringarefna til umhverfisins má almennt gera ráð fyrir að fóður innihaldi 51 prósent kolefni, 7 prósent af köfnunarefni (nitur) og 1 prósent af fosfór. Við mat á losun næringarefna frá sjókvíaeldi Arnarlax í Djúpinu er gert ráð fyrir að 70 prósent af öllu kolefni í fóðri berist í í umhverfið, 62 prósent af öllu köfnunarefni og 70 prósent af öllum fosfór. Megin hluti þess kolefnis er berst til umhverfisins er koltvísýringur (CO2). Áætluð árleg losun á köfnunarefni (niturs) þegar framleiðsla er komin í tæp 10.000 tonn er alls 483 tonn. Áætluð árleg losun fosfórs er 65 tonn og áætluð árleg losun kolefnis 978 tonn.
Til viðbótar við fyrirhugað sjókvíaeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi áforma fleiri fyrirtæki þar sjókvíaeldi. Háafell ehf. áformar framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi og 200 tonnum á þorski á níu stöðum í Djúpinu og var frummatsskýrsla lögð fram til Skipulagsstofnunar árið 2016.
Arctic Sea Farm hf. áformar 8.000 tonna framleiðslu af laxi og silungi í Djúpinu. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun um framleiðsluaukningu fyrirtækisins var birt um mitt ár 2017. Þá áformar Hábrún að auka núverandi eldi í 700 tonn og hefur tillaga að starfsleyfi vegna þeirrar aukningar verið auglýst á vef Umhverfisstofnunar.
Ef áform um framleiðslu Arnarlax, Arctic Sea Farm, Háafells og Hábrúnar á eldisfiski ná fram að ganga mun heildarframleiðsla í Ísafjarðardjúpi verða um 25.700 tonn á ári.
Samlegðaráhrif fiskeldis í Ísafjarðardjúpi og við Vestfirði eru í skýrslu Arnarlax metin nokkuð neikvæð fyrir ástand sjávar, botndýralíf og haf- og strandnýtingu, en gætu orðið nokkuð til talsvert neikvæð fyrir náttúrulega laxastofna, ef um er að ræða frjóan lax, en líklega í mesta lagi óveruleg í tilfelli ófrjós eldislax.
Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 26. maí 2020 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.