Í sviðsmyndagreiningu sem Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa látið vinna gerir grunnsviðsmyndin ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs í ár verði 330 milljarðar króna. Þar af verði áhrif efnahagssamdráttar á rekstur hans neikvæð um 230 milljarða króna og að aukin útgjöld í fjáraukalögum gæti orðið 40 milljarðar króna.
Þá reikna Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins með að kostnaður vegna hlutabótaleiðarinnar svokölluðu og þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að greiða hluta launa starfsmanna sumra fyrirtækja í uppsagnarfresti muni kosta skattgreiðendur um 60 milljarða króna á yfirstandandi ári.
Hlutabótaleiðin var kynnt til leiks sem grundvallaraðgerð stjórnvalda til að takast á við yfirstandandi efnahagsástand í mars síðastliðnum. Hún átti að hafa það markmið að viðhalda ráðningarsambandi hjá fyrirtækjum sem eru nú með litlar eða engar tekjur. Samkvæmt lögunum um leiðina átti Atvinnuleysistryggingasjóður að greiða frá 25 prósent og allt að 75 prósent af launum þeirra sem gera slíka samninga. Upphaflega átti hlutabótaleiðin að gilda til 1. júní.
Samhliða því að þessi ákvörðun var kynnt, þann 28. apríl, var greint frá því að fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi verði gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Frumvarp vegna þessa er ekki komið fram og því liggur opinber kostnaðargreining á úrræðinu ekki fyrir.
Næstu daga var á fimmta þúsund manns sagt upp í hópuppsögnum. Sem stendur þiggja hátt í 60 þúsund manns bætur frá Vinnumálastofnun vegna þess að þau eru atvinnulaus að öllu leyti eða hluta. Stofnunin greiddi út um tólf milljarða króna um síðustu mánaðamót, sem er meira en hún greiddi út í bætur allt árið 2018, þegar samanlagðar greiðslur voru ellefu milljarðar króna