Að mati Persónuverndar er ekkert í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem kemur í veg fyrir að Vinnumálastofnun birti eða afhendi upplýsingar um það hvaða fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu.
Persónuvernd tekur þó ekki afstöðu til þess hvort birting þessara upplýsinga sé lögmæt, þar sem beiðni um birtingu þurfi að skoðast í ljósi upplýsingalaga. Þetta kemur fram í svari Persónuverndar til Vinnumálastofnunar vegna bréfs sem Vinnumálastofnun sendi á dögunum.
Bréfið sendi stofnunin eftir að forystufólk ríkisstjórnarinnar lýsti því skyndilega yfir, í kjölfar fjölda frétta um að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér hlutabótaleiðina, að réttast væri að gagnsæi ríkti um hvaða fyrirtæki hefðu nýtt sér þetta úrræði stjórnvalda um að semja við starfsfólk um minnkað starfshlutfall.
Vinnumálastofnun sagði að hún teldi sig hvorki hafa heimild til að afhenda né birta slíkan lista, þar sem með slíkri birtingu yrði auðvelt að finna út nöfn þeirra starfmanna minni fyrirtækja sem hafa fengið greiddar hlutaatvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli.
Persónuvernd telur að þrátt fyrir að mögulega yrði hægt að persónugreina upplýsingarnar, geti upplýsingar um það hvaða einstaklingar eru í minnkuðu starfshlutfalli ekki talist vera „viðkvæmar persónuupplýsingar“ í lagalegum skilningi.
Fram hefur komið sú hugmynd að birta einungis lista yfir stærri fyrirtæki sem nýtt hafa hlutabótaleiðina, til að komast hjá því að upplýsingarnar verði persónugreinanlegar. Vinnumálastofnun spurði hvort þetta væri „nægjanleg aðgerð“ til að tryggja ekki væri unnt að persónugreina einstaklinga.
Persónuvernd telur að leggja verði til grundvallar að almannahagsmunir standi til þess að upplýsingar um hvaða fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina verði gerðar aðgengilegar og að líklegt sé að tilgangurinn, aðhald með fyrirtækjum, „náist ekki fyllilega“ verði fámenn fyrirtæki undanskilin með öllu frá birtingunni.
„Í því sambandi bendir Persónuvernd á að ekki er alltaf samhengi á milli starfsmannafjölda fyrirtækja og fjárhagslegrar stöðu þeirra,“ segir í svari Persónuverndar.