Ísland fer upp um fjögur sæti á milli ára í Regnbogakortinu, úttekt evrópsku deildar Alþjóðasamtaka hinsegin fólks (ILGA-Europe) á stöðu og réttindum hinsegin fólks í ríkjum Evrópu. Ísland er nú í 14. sæti en var í 18. sæti þegar kortið var gefið út á síðasta ári.
Kortið, sem sjá má hér að ofan, sýnir á myndrænan hátt mat samtakanna á lagalegri stöðu og réttindum hinsegin fólks í ríkjum Evrópu eins og þau voru á árinu 2019. Ísland telst, samkvæmt mati samtakanna, vera búið að tryggja hinsegin fólki 54 prósent mannréttindi, sem er yfir bæði meðaltali Evrópusambandsríkja (48 prósent) og Evrópu í heild (38 prósent).
Þó stendur Ísland hinum Norðurlöndunum nokkuð að baki, en þau eru að mati samtakanna búin að tryggja hinsegin fólki á bilinu 63-68 prósent mannréttindi og eru í 4.-10. sæti á listanum. Ísland hækkar þó mest allra Norðurlandanna á milli ára. Miðjarðarhafseyjan Malta trónir á toppi listans.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að samþykkt laga um kynrænt sjálfræði, sem staðfesti rétt einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun, hafi þýtt verulegar réttarbætur til handa trans og intersex fólki og að Ísland stefni að því að tryggja enn betur réttindi þessara hópa.
„Starfshópar á vegum forsætisráðuneytisins vinna að tillögum um breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans og intersex fólks. Þá er einnig unnið að málefnum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal heilbrigðisþjónustu við þau,“ segir í tilkynningunni.
Síðara atriðið er einmitt eitt af þeim atriðum sem ILGA-Europe
leggja til að skoðuð verði nánar hérlendis, í því skyni að bæta réttindastöðu
hinsegin fólks.
Samtökin leggja þannig til, í skýrslu sinni, að Íslendingar banni allt óþarft inngrip í líkama barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sem megi fresta þar til manneskjan geti veitt upplýst samþykki fyrir aðgerðinni og segja miður að réttindi intersex fólks hafi ekki verið varin í samþykktum lögum um kynrænt sjálfræði að þessu leyti.
Í umfjöllun samtakanna um stöðu mála á Íslandi eru bæði tiltekin neikvæð og jákvæð dæmi um stöðu hinsegin fólks sem fram komu í fréttum á síðasta ári.
Meðal annars er rifjað upp þegar ungum samkynhneigðum manni var meinuð innganga á skemmtistaðinn Austur í miðborg Reykjavíkur síðasta sumar og þegar regnbogafánum var flaggað af miklum móð við komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna hingað til lands.