Þýska knattspyrnan, Bundesligan, mun hefjast að nýju á laugardag. Deildin verður þannig fyrst allra stóru deildanna í Evrópu til þess að reyna að ljúka tímabilinu, sem hefur verið í pásu frá því snemma í marsmánuði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Íslendingar munu geta fylgst með, en norræna streymisveitan Viaplay er með sýningarréttinn að þýska boltanum á Íslandi og ætlar að byrja að bjóða upp á íþróttapakkann sinn á Íslandi frá og með morgundeginum. Pakkinn mun kosta 1.599 krónur á mánuði.
Steymisveitan hóf að bjóða upp á þjónustu sína á Íslandi 1. apríl síðastliðinn, en hefur til þessa einungis boðið upp á þáttaseríur, kvikmyndir og barnaefni, enda íþróttirnar nær allstaðar í dvala vegna heimsfaraldursins.
„Það verður frábært að fá fótboltann aftur í gang og gaman að geta loks boðið Íslendingum upp á eitthvað af þeim stórkostlegu íþróttum sem NENT Group hefur tryggt sér útsendingaréttinn að. Auk Bundesligunnar geta Íslendingar einnig horft á NASCAR-kappaksturinn á sunnudaginn og vonandi einnig Formúlu 1 og Bundesligu-handboltann fljótlega,“ er haft eftir Kim Mikkelsen, yfirmanni íþróttasviðs NENT, í fréttatilkynningu.
Í tilkynningunni frá Viaplay segir að allir leikir efstu deildar verði sýndir og einnig valdir leikir í næstefstu deild þýska fótboltans. Fyrstu þrjár viðureignirnar um helgina verða sýndar með íslenskum álitsgjöfum, en aðrir leikir með enskum álitsgjöfum.
Hvað íþróttir varðar er Viaplay að verða risi á norrænum sjónvarpsmarkaði og hefur til dæmis tryggt sér sýningarréttinn á enska boltanum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi frá 2022-2028, auk þess að vera með sýningarréttinn á Meistaradeild Evrópu á einstaka mörkuðum nú þegar.
Anders Jensen, forseti og framkvæmdastjóri samstæðunnar sem rekur streymisveituna, ræddi við Kjarnann í lok mars og vildi þá ekki staðfesta hvort fyrirtækið ætlaði sér að sækjast eftir sýningarrétti á þessum vörum hér á landi í framtíðinni, en bætti við að sagan hefði sýnt að Viaplay hefði verið í sóknarhug gagnvart þessum vörum á öðrum norrænum mörkuðum.