Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vekur máls á orðum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra í stöðuuppfærslu á Facebook í dag en ráðherrann sagðist í viðtali við Kjarnann enn vera þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin geri rétt í því að starfa út kjörtímabilið allt. Það þýðir að kosið verði að hausti en ekki að vori eins og venjan er.
„Vissulega geta aðstæður breyst en þetta yrðu aðstæður þar sem ný ríkisstjórn, líklega með nýjar áherslur, hefði ekki svigrúm til þess að undirbúa nýja stefnu. Það myndi þýða að stefna þessarar stjórnar væri að endast til 2023,“ skrifar Björn Leví.
Að hans mati er það ábyrgðarleysi í kjölfar svona ástands að setja fjárlagagerð í árslokaafgreiðslu eins og hafi verið gert eftir síðastliðnar tvennar kosningar.
Sýni sjálfhverfu þeirra og valdhyggju
Björn Leví segir að áróðurinn verði sá að auðvitað verði nú að kjósa sömu stjórn aftur, „til þess að þau fái bara að klára fjárlagafrumvarp sem þau leggja fram rétt fyrir kosningar. „Stöðugleikinn“ sko.“ Hann bendir á að vert sé að hafa í huga að Íslendingar hafi verið í efnahagssamdrætti fyrir COVID-19. Þeir séu að vinna samkvæmt endurskoðaðri fjármálastefnu út af samdrætti vegna WOW og aflabrests. Ekkert virtist hins vegar vera „að ganga að vinna neitt til baka úr því þar sem atvinnuleysi hafi farið stöðugt vaxandi“ fram að COVID-19.
Hann telur að hreinlegast væri að fá endurnýjað umboð vorið 2021. Það gæfi öllum heiðarlegt tækifæri til þess að koma aðgerðum af stað strax árið 2022 í stað 2023. „Ef stjórnarflokkarnir ætla að halda sig við haustið, hins vegar, þá sýnir það einfaldlega sjálfhverfu þeirra og valdhyggju. Ekki virðingu fyrir lýðræði eða skilningi á því að það er hægt að gera hlutina öðruvísi. Tregða þeirra til þess að leggja áherslu á nýsköpun og að tryggja sveigjanleika grunnstoðanna okkar er beinlínis skaðleg.“
Þá finnist honum auðvelda ákvörðunin vera að treysta á lýðræðið. „Erfiða ákvörðunin verður að hafa þennan flokk við völd því lausnin er sáraeinföld. Hún tekur einfaldlega tíma.
Við tekur uppbyggingarferli, ekki skyndilausnir. Þær keyra okkur alltaf í kaf. Við þurfum sjálfbært samfélag sem er ekki svona viðkvæmt fyrir sveiflum í einstaka atvinnugreinum,“ segir hann að lokum.
"Hann segist enn vera þeirrar skoðunar að það ríkisstjórnin geri rétt í því að starfa út kjörtímabilið allt"...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Friday, May 15, 2020