Í einkageiranum þarf að taka erfiðar en stefnumótandi ákvarðanir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi, að mati Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Skapa þarf umhverfi fyrir fyrirtæki til að fá viðspyrnu en að passa sig líka að teygja ekki opinberan stuðning til að bjarga fyrirtækjum sem voru ekki að reka sig án vandræða áður en yfirstandandi áfall reið yfir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali Kjarnans við Bjarna sem birt var fyrir helgi. Viðtalið er hluti af umfjöllunarröð Kjarnans þar sem sjónum er beint að þeirri framtíð sem gæti sprottið upp úr stöðunni sem nú blasir við Íslandi efnahagslega. Fyrsti hluti þeirrar umfjöllunar voru viðtöl við alla þrjá formenn stjórnarflokkanna.
Verður að styðja við lífvænleg fyrirtæki
Bjarni segir að það verði til að mynda að horfast í augu við það að sum fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi ekki verið að ganga nægilega vel. „Við verðum að gæta að því hversu langt við göngum í að halda lífi í þeim. Um það snýst meðal annars umræðan um að við viljum fyrst og fremst styðja við lífvænleg fyrirtæki. Síðan er það bara þannig að það hafa verið að skjóta rótum nýjar greinar á Íslandi. Ég nefni fiskeldi sem dæmi. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því hversu ofboðsleg verðmætasköpun er þar að eiga sér stað á fáum árum.
Þurfum að læra af reynslunni
Bjarni telur ferðaþjónustuna, sem gengur nú í gegnum mikla eyðimerkurgöngu, eigi mikla möguleika á að ná vopnum sínum aftur. Hægt sé að læra af reynslu síðustu ára og af þeim umhverfislegu og samfélagslegu áskorunum sem fylgdu því að fara úr hálfri milljón ferðamanna á ári í rúmlega tvær milljónir á skömmum tíma. „Út um skrifstofugluggann hjá mér í ráðuneytinu þá horfi ég á stærsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi [Marriott-hótelið sem rís nú við hlið Hörpu]. Nýtt hótel sem er hugsað til þess að draga til landsins ferðamenn sem eru að leita að slíkum gistimöguleika. Þarna held ég að við séum að færa okkur aðeins nær því að það verði meira eftir fyrir samfélagið í heild að fá slíka til landsins, ólíkt því sem væri ef við værum eingöngu að treysta á það sem koma með bakpoka og niðursuðudósir.“
Hægt er að lesa viðtalið við Bjarna í heild sinni hér og hlusta á það hér fyrir neðan.