Netverslun nam heilum 9 prósentum af heildarverslun Íslendinga í aprílmánuði, samkvæmt nýjum tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Í sama mánuði í fyrra var netverslunin einungis um þrjú prósent af allri verslun, en jókst mjög mikið í ár vegna samkomubannsins sem var í gildi í apríl.
Mikil aukning varð í fataverslun á netinu, en hún jókst um tæp 280 prósent frá því í sama mánuði í fyrra fyrra og nam 308 milljónum króna. Heilt yfir dróst fataverslun þó saman um 28 prósent, en velta fatabúða nam 1,2 milljörðum króna.
Kortavelta byggingavöruverslana nam 2,8 milljörðum króna í apríl, jókst um þriðjung frá fyrra og virðist ljóst að margir hafi nýtt aukna heimaveru vegna kórónuveirufaraldursins til þess að ráðast í einhverjar verklegar framkvæmdir.
Mikill samdráttur varð á sama tíma á veltu veitingaþjónustu og eldsneytissölu. Eldsneytiskaup landans minnkuðu um 1,4 milljarða króna á milli ára, enda margir búnir að vera að vera vinna heima og fáir að fara í ferðir á milli landshluta að nauðsynjalausu, enda var fólki ráðið frá því.
Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum innanlands nam 34,7 milljörðum króna í apríl og jókst um 11 prósent samanborið við apríl í fyrra, en heildarkortavelta Íslendinga innanlands dróst þó saman um 13,6 prósent á milli ára og nam 53,1 milljarði króna.
Erlend kortavelta ekki minni frá upphafi mælinga
Erlend kortavelta hérlendis í mánuðinum nam 949 milljónum króna og hefur aldrei verið lægri að raungildi frá því að Seðlabanki Íslands hóf mælingar árið 2002. Enda landið nær alveg lokað fyrir erlendum ferðamönnum.
Velta bandarískra korta var mest í mánuðinum, 241 milljón króna, en í sama mánuði í fyrra nam velta þeirra hérlendis 4,45 milljörðum króna.